Eldislax er hollur fyrir alla

Dr. Þorleifur Ágústsson fiskalífeðlisfræðingur skrifar:

Að spyrja gagnrýnna spurninga er lykilatriði í vísindum eins og í lífinu almennt. Mikilvægt er að trúa ekki öllu sem maður les, heyrir eða sér – heldur að kynna sér málið og mynda sér skoðun á upplýstum forsendum. En stundum er umræðan með slíkum hætti að fátt bendir til gagnrýninar hugsunar en þess í stað er hlaupið upp til handa og fóta, allskonar yfirlýsingar gefnar án nokkurs rökstuðnings. Það er slæmt.

Slík umræða er því miður algeng þegar kemur að laxeldi. Mantran þulin að eldislax sé næringarsnauður og jafnvel hættulegur til neyslu. Þrátt fyrir að staðreyndir rannsókna staðfesti annað. Svo ekki sé nú velt fyrir sér hver væri í raun viðskiptahugmyndin með því að framleiða og selja hættulegan mat – ekki gáfuleg viðskipti það!

Í Noregi hefur laxeldi verið stundað í áratugi og gríðarlegt magn framleitt og selt um allan heim. Á þeim tíma hefur eldistækninni fleygt fram og þá ekki síst þróun á fóðri fyrir eldislax. Markmiðið með laxeldi hefur alltaf verið og er enn að framleiða næringarík matvæli fyrir fólk. Ekki ala fiskinn bara af því bara,- og í besta falli til að hann sleppi og blandist villtum laxastofnum. Nei, til að framleiða matvæli. Þegar matvæli eru framleidd er leitast við að búa til vöru sem fellur vel í kramið hjá neytendum og eftirspurn er eftir. Ekki er verra ef framleiðslan hefur lágmarks áhrif á umhverfið – skilur eftir sig lítið kolefnisspor, eins og talað er um í dag. Það er hinsvegar svo að í árdaga laxeldis var ekki verið að hugsa mikið um umhverfisáhrifin enda umræðan ekki á þeim stað sem hún er í dag og þekkingin ekki heldur. En það hefur breyst mikið, sem er mjög gott.

Helstu rök andstæðinga laxeldis er að eldislax innihaldi ekki lengur neina – eða mjög lítið af mikilvægu fitunni Omega-3. Ef hinir sömu kynntu sér þær mælingar sem liggja fyrir og aðgengilegar eru öllum (https://vkm.no/) þá kemur í ljós að þrátt fyrir að magn Omega-3 sé um helmingi lægra en það var fyrir 12 árum síðan, er staðreyndin sú að ein laxamáltíð á viku uppfyllir Omega-3 næringarþarfir fullorðinnar manneskju. Ástæða minna magns af Omega-3 er sú að meira er notað af plöntu olíum í fóður fyrir lax en áður var gert. Staðreyndin er hinsvegar sú eldislax er oftar en ekki feitari en villtur lax og inniheldur því meira af Omega-3 en sá villti.

Þegar Omega-3 rökin duga ekki til, þá er gjarnan rætt um að eldislax sé stútfullur af eiturefnum. Hér eru gjarnan talin upp þekkt eiturefni sem finnast í náttúrunni t.d. PCB, dioxín og kvikasilfur. Staðreyndin er sú að með minni notkun á fiskimjöli-og lýsi en þess í stað meiri notkunar á jurtaolíum og próteinum, þá hefur magn þessara efna í eldislaxi minnkað um 70%. Reyndar er svo lítið af þessum efnum að finna í eldislaxi að fullorðinn maður getur borðað yfir 1 kg af eldilaxi á viku án þess að ná hættumörkum – reyndar ólíkt því sem er með villtan lax sem inniheldur meira magn þessara efna en eldislaxinn. Eðlilega, villtur lax borðar það sem til boða er í náttúrunni og hefur ekki her sérfræðinga til að þróa og framleiða til hollan mat fyrir sig og jafnframt gæta þess að ekki séu eiturefni í fóðrinu.

Hinsvegar þarf að hafa varann á og því fylgir hætta við að nota meira af jurtaolíum og próteinum í fóður fyrir lax. Hér er átt við eiturefni sem eru notuð í baráttunni við sníkjudýr þegar verið er að rækta jurtir sem síðan eru notaðar í fóðrið (efnum sem sprautað er t.d. á akra). Það er auðvitað rétt að slíkt getur skapað vanda og er tekið alvarlega. Strangt eftirlit er með slíku og er nóg að heimsækja síður opinberra eftirlitsaðila til að staðfesta það (https://www.mattilsynet.no/fisk_og_akvakultur/). Spakmælinu „allt er best í hófi“ má hinsvegar ekki gleyma og það á við um allan mat. Að borða í óhófi eykur jú hættuna á að innbyrða óæskileg efni í of miklu magni. Það þekkjum við vel sem berjumst við aukakílóin svo dæmi sé tekið.

Niðurstaðan er auðvitað sú að eldislax er bráðhollur eins og fiskur er almennt. Jafn hollur fyrir þá sem eru á móti laxeldi, eins og fyrir öll okkur hin.