Fiskeldisblaðið

Fréttir

Umhverfisvænar laxabollur í IKEA

Samkvæmt eftirfarandi frétt á Fiskifréttum ætlar IKEA að bjóða upp á laxabollur á veitingastöðum sínum.   Fram kemur í fréttinni að notaður verði norskur ASC-vottaður lax en nú nýlega fengu Arnarlax og Arctic sea farm ASC-vottun.

Frétt Fiskifrétta 

„Sænsku kjötbollurnar í IKEA fá brátt samkeppni frá laxabollum, en verslanakeðjan hefur ákveðið að í öllum verslunum hennar á heimsvísu verði boðið upp á laxabollur. Þetta verði bæði hollari og umhverfisvænni valkostur við kjötbollurnar.

Norski fréttavefurinn Kyst.no, sem sérhæfir sig í fiskeldisfréttum, greinir frá þessu. Þar kemur fram að eingöngu verði notaður norskur eldislax, ASC-vottaður, og einnig verður reyndar eitthvað af MSC-vottuðum þorski í bollunum. Þær verða kryddaðar með þangi og sítrónugrasi.

„Kolefnisfótspor laxabollanna er sjö sinnum minna en hefðbundnu kjötbollunum okkar,“ hefur Kyst.no eftir Tor Morten Myrseth, sem ber ábyrgð á matvöruhluta IKEA í Noregi.

Laxabollurnar eru þegar komnar í verslanir IKEA í Bandaríkjunum og í apríl á næsta ári verða þær komnar í norsku verslanirnar.

IKEA er matvörukeðja ekki síður en húsgagnakeðja, því mikið af mat er selt bæði á veitingastöðum fyrirtækisins og í matvörudeildum þess auk þess sem matur er framreiddur í miklu magni í starfsmannamötuneytum fyrirtækisins á degi hverjum.

Í Noregi eru sjö IKEA-verslanir. Þar í landi er gert ráð fyrir að seld verði 20 til 50 tonn af laxabollum á ári, en alls eru IKEA-verslanir í heiminum 434 talsins núna, þar af 48 í Bandaríkjunum og 53 í Þýskalandi. Samkvæmt því mætti væntanlega búast við að heildarsalan verði vel á annað þúsund tonn árlega þegar bollurnar verða komnar í allar búðir keðjunnar.“