Fiskeldisblaðið

Fréttir

Byggðastofnun – atvinnutekjur af fiskeldi á Vestfjörðum voru 1.075 milljónir árið 2017

Óttar Yngvason lögmaður náttúruverndarsamtaka og veiðiréttarhafa sagði í viðtali í Kastljósi í kvöld að örfáir einstaklingar starfi við fiskeldi á Vestfjörðum.  Þær fullyrðingar Óttars eru í engu samræmi við raunveruleikann eins og staðfest er í frétt Ölmu Ómarsdóttur fréttmanns á RÚV í dag sem byggir á upplýsingum Byggðastofnunar.

http://www.ruv.is/frett/160-170-bein-storf-a-sunnanverdum-vestfjordum

„Um 160-170 bein störf eru hjá fyrirtækjunum Arctic Sea Farm og Arnarlax á sunnanverðum Vestfjörðum, samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun.

Gögn sem Hagstofa Íslands hefur unnið úr skattagögnum frá Ríkisskattstjóra um atvinnutekjur eftir atvinnugreinum og landssvæðum vegna ársins 2017 styðja þessar upplýsingar, að sögn Byggðastofnunar. Þar kemur fram að atvinnutekjur af fiskeldi á Vestfjörðum voru 1.075 milljónir krónur á árinu 2017. Miðað við 160 starfsmenn gera það 6,7 milljónir í árstekjur á mann eða 560 þúsund á mánuði.

21 milljarðs fjárfesting

Í minnisblaði sem Byggðastofnun tók saman fyrir forsætisráðuneytið kemur fram að heildarfjárfesting Arctic Sea Farm vegna fiskeldis á svæðinu er komin í 7 milljarða króna. Þar af fóru 3,6 milljarðar í seiðaeldisstöðina í Tálknafirði. Heildarfjárfesting hjá Arnarlaxi er um 14 milljarðar króna. Samtals fjárfesting félaganna beggja er því um 21 milljarður.

Frá aldamótum og til ársins 2012 fækkaði fólki á sunnanverðum Vestfjörðum verulega auk þess sem aldursamsetning skekktist vegna fækkunar ungs fólks. Sú þróun stóð fram til ársins 2012 þegar fólki tók að fjölga á ný í tengslum við uppbyggingu fiskeldis á svæðinu, segir í minnisblaðinu. Sérstaklega eigi það við um Patreksfjörð og Bíldudal en fólki fækkaði á Tálknafirði eftir lokun fiskvinnslu Þórsbergs ehf. á staðnum. Í dag er staðan sú á sunnanverðum Vestfjörðum að aðeins ein fiskvinnsla er eftir, fiskvinnsla Odda hf. á Patreksfirði.

Byggðastofnun óttast um framtíð fyrirtækjanna

Það er mat Byggðastofnunar að ef ekki er unnt að fresta réttaráhrifum úrskurðar  Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál muni það leiða til mjög mikils fjárhagslegs taps félaganna vegna fjárfestinga í eldisfiski og búnaði. Eldisfyrirtækin þurfi að hafa tryggan aðgang að fjármagni. Allur vafi á því að eldisleyfi séu gild eða einhverjum annmörkum háð sé líklegur til að leiða til lokunar á aðgangi að lánsfjármagni og að fjárfestar haldi að sér höndum. Fáist ekki lánsfjármagn sé grundvöllur rekstrar og framtíðaráforma fyrirtækjanna brostinn sem muni leiða til mikils samdráttar eða jafnvel þess að félögin neyðist til að hætta starfsemi, segir í minnisblaðinu.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í hádeginu frumvarp um rekstrarleyfi til bráðabirgða fyrir fiskeldi. Þetta frumvarp er lagt fram eftir að Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál ógilti bæði starfs- og rekstraleyfi Fjarðarlax og Arnarlax fyrir fiskeldi í Patreksfirði og Tálknafirði.

Um helgina hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýst áhyggjum af þessum úrskurðum nefndarinnar. Náttúrverndarsamtök og veiðiréttarhafar hafa hins vegar varað við því að hróflað yrði við niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar.“