Fiskát eykur kynlíf og frjósemi

Ný rannsókn sýnir að þau pör sem borða mikið af fiski eiga fjörugra kynlíf og búa við meiri frjósemi en þau pör sem ekki hafa fisk á borðum hjá sér.

Niðurstöður í skýrslu um rannsóknina hafa verið birtar í tímaritinu Journal of Clinical Endocrinology & Metabolism. Rannsóknin sýnir að sjávarfang er mikilvæg uppspretta próteins og annarra næringarefna fyrir konur sem eru eða hugsanlega verða óléttar. Hinsvegar hafa áhyggjur af kvikasilfri í fiski valdið því að konur sem eru að reyna að verða óléttar forðast fiskát.

Á vefsíðunni FISHupdate er vitnað í Audrey Gaskins hjá Harvard háskólanum í Massachusetts, einn höfunda skýrslunnar, sem segir að rannsóknin bendi til að sjávarfang auki frjósemi þar á meðal að styttri tíma taki að verða ólétt og að pör sem borði mikið af fiski stundi kynlíf oftar og meir en pör sem forðast fiskát.