Fiskeldisblaðið

Fréttir

Vírus ógnar tilapiaeldinu í fimm löndum

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) gaf út aðvörun fyrr í ár vegna nýs vírussjúkdóms sem fundist hefur bæði í ræktuðum og villtum tilapia fiskum. FAO telur að þessi sjúkdómur ógni mataröryggi á heimsvísu ef ekki verði gripið til ráðstafana til að halda honum í skefjum. Í Taílandi, einu af fimm löndum sem vírusinn hefur greinst í, hefur vírusinn drepið um 90% af öllum tilapia eldisfiskum það sem af er árinu.

Vírusinn sem gengur undir nafninu Tilapia lake virus eða TilV greindist fyrst í Ísrael árið 2009 en það var ekki fyrr en 2014 að staðfest var að um nýja tegund af vírus væri að ræða. Vírusinn er skyldur anaemia- eða blóðleysisvírusnum sem leikið hefur laxeldi grátt víða í heiminum. Málið er alvarlegt í ljósi þess að tilapia en vinsælasti eldisfiskur í heimi næst á eftir laxi og karfa.

Fram að þessu hefur TilV greinst í fimm löndum, fyrir utan Ísrael og Taíland eru það Kólombía, Ekvador og Egyptaland. Sjúkdómseinkennin eru meðal annars dofi, útbrot á roði og skerðing á sjón. Enn er ekki vitað nákvæmlega um smitleiðir en m.a. verið er að rannsaka hvort smit geti borist með öðrum lífverum eða með frosnum fiski. Þá er unnið að því að mynda bóluefni gegn veirunni.

Lönd eins og Kína, Indland og Indónesía hafa þegar brugðist við smithættunni með auknum öryggisráðstöfunum á og í kringum eldisstöðvar.

FAO telur að tilapia sé með mikilvægustu eldisfiskum í heiminum hvað magn varðar. Eldi þeirra skapar mat, vinnu og tekjur fyrir milljónir manna, en meðal þeirra sem hafa tekjur af eldinu er fjöldi smáframleiðenda.