Fiskeldisblaðið

Fréttir

Skelfileg byrjun á heimsins stærsta landeldi á laxi

Norska laxeldisfyrirtækið Atlantic Sapphire sem staðið hefur fyrir umfangsmikilli uppbyggingu laxeldis á landi segir í fréttatilkynningu til Kauphallarinnar í Ósló, 28. júlí að vegna neyðaraðstæðna í nýrri eldisstöð félagsins í nágrenni Miami í Flórída hafi þurft að slátra umtalsverðu magni af laxi af óþekktum ástæðum. Um er að ræða 1/3 af þeim fiski sem var í ræktun í stöðinni en áætlað var að fyrstu löxum sem ræktaðir eru í stöðinni yrði slátrað á næstu vikum.

Megnið af þeim laxi sem nú var slátrað vegna neyðaraðstæðna eru ekki markaðshæfar afurðir og fara í bræðslu. Engar haldbærar skýringar liggja fyrir um ástæður þess. Landeldisstöðin sem er sú stærsta sinnar tegundar í heimi byggir á svokölluðu RAS fiskeldiskerfi sem endurnýtir vatn sem notað er til laxeldisins.

Íslenskur Atlandshafslax vinsæll í laxeldi víða um heim

Laxinn í risa eldisstöðinni í Miami er íslenskur Atlandshafslax en hrognin eru innflutt frá Stofnfiski hf á Reykjanesi sem er framarlega á sínu sviði eftir áratuga kynbætur á laxahrognum í íslenskum sjó með framúrskarandi árangri.  Íslensku hrognin eru harðgerð og tekist hefur að rækta heilbrigðan stofn með góðan vaxtahraða sem er laus við sjúkdóma sem áður voru algengir. Mikil eftirspurn hefur verið eftir íslenskum hrognunum í þeirri bylgju upp­bygg­ing­ar fisk­eld­is í land­stöðvum sem nú á sér stað víða um heim. Þrátt fyr­ir auk­ingu í sölu til land­stöðva fer megnið af framleiðslunni til eldis á laxi í sjókvíum, á Íslandi, Fær­eyj­um, Skot­land, Nor­egi og Síle.

Margar sambærilegar landeldisstöðvar eru á teikniborðinu eða í fjármögnunarferli, þrátt fyrir að rekstur laxeldisstöðva á landi hafi oftar en ekki reynst áhættusamar og óarðbærar.  Líkur eru á því að fjárfestar muni hörfa frá fyrirhuguðum hugmyndum um áhættusamt risa landeldi í ljósi frétta af neyðarástandi sem kom upp í vikunni hjá Atlantic Sapphire í stærstu og fullkomnustu landeldisstöð í heimi sem fjárfestar hafa horft til sem fyrirmyndar um framtíð laxeldis á landi.  Útlitið er ekki bjart fyrir arðbært landeldi að þessari stærðargráðu í þessu ljósi, þar sem hvergi hefur verið til sparað í uppbyggingu á stærsta og fullkomnasta landeldi á laxi í heimi.

Laxeldisstöð Atlantic Sapphire í nágrenni Miami í Flórída.

„Enn er verið að kanna nákvæma atburðarás, en álag á svæðinu vegna byggingarframkvæmda í nálægð við laxeldið, þar á meðal hávaði og mikill titringur kann að hafa valdið álagi og stressi sem laxinn er viðkvæmur fyrir,“ segir í tilkynningu frá Atlantic Sapphire.  Auk þess segir að áhrif COVID-19 faraldursins hafi seinnkað framkvæmdum og gangsetningu á nauðsynlegum búnaði.  Fullyrt er að ekkert bendi til þess að eitrun eða sjúkdómar séu orsök neyðarástandsins þrátt fyrir að megnið af laxinum fari í bræðslu og er ekki markaðshæfur.

Hátt hitastig vatns eða stress orsök neyðarslátrunar

Slátra þurfti 200.000 löxum af þeim 600.000 fiskum sem voru í landeldi Atlantic Sapphire í Flórída. Samtals hefur 400 tonnum af laxi verið slátrað vegna neyðarástandsins. Vonir standa til að 150 tonnum af þeim laxi sem slátrað hefur verið verði markaðshæfar afurðir.  Það þýðir að 250 tonn af laxi (62,5 prósent) – sem jafngildir 13 fullhlöðnum flutningsbílum, endar í bræðslu. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir 15% árlegum afföllum.  Um er að ræða gríðarlegt áfall og ekki einungis tjón Atlantic Sapphire heldur fjölda áforma sem uppi eru um sambærilegar landeldisstöðvar víða um heim.

Talsmaður Atlantic Sapphire segir ástæðuna fyrir því að svo stórt hlutfall uppskerunnar hafi ekki ekki verið vinnsluhæfa markaðsvöru vera vegna þess að enn sé unnið að uppbyggingu kerfa til að færa fiska til í neyðaraðstæðum auk þess sem bygging aðstöðu til vinnslu á neyðaruppskeru sé enn ólokið.  Samkvæmt heimildarmanni vefmiðilsins Salmonbusiness sem er starfsmaður landeldisins í Miami er ástæða neyðarslátrunnar vegna erfiðleika á stjórnun hitastigs vatns sem farið hafi upp í allt að 21 gráðu á celcius, sem eru langt fyrir ofan lífvænlegt hitastig laxa en miðað er við að hitastig vatns fari ekki upp fyrir 14 gráður. Töluverð kæling þarf að koma til þar sem hitastig utan dyra er að meðaltali í kringum 30 gráður.

„Venjulega svörum við ekki fyrirspurnum um sérstæðar aðstæður starfseminnar en hitastig vatns í tönkum var stöðugt og er ekki orsök þeirra neyðaraðgerða sem grípa þurfti til. Við fyrstu athuganir virðist megin ástæðan vera aukið stress laxins sem leiddi til þess að grípa þurfti til neyðaraðgerða, “ segir talsmaður Atlantic Sapphire og vísar til hávaða og titrings vegna framkvæmda á svæðinu umhverfis þessa fullkomnustu landeldisstöð í heimi.

Áætla að framleiða 10.000 tonn á ári í fyrsta áfanga

Í tilkyningunni kemur auk þess fram að ýmis kerfi séu ekki tilbúin í svonefndri „Bluehouse“ byggð í Miami sem Atlantic Sapphire hefur nefnt landeldistöðina. Fullyrt er að ef öll kerfi væru komin í notkun samkvæmt áætlun hefði tjónið vegna þeirra aðstæðna sem nú kom upp orðið minna.  Enn liggur ekki fyrir fjárhagslegt mat á áhrifum tjónsins fyrir félagið en ljóst er að það hefur veruleg áhrif á afkomu þess sem hafði kynnt fjárfestum jákvæðar áætlanir fyrir árið 2020 þegar fyrstu afurðir félagsins færu á markað og ráðgert var að fyrsta áfanga framkvæmda vegna risa laxeldsstöðvarinnar í Miami yrði lokið nú í júlí.

„Atvikið nú sýnir fram á mikilvægi þess að ljúka framkvæmdum við byggingu allra Bluehouse-kerfa og stuðningskerfa, meðan á rekstri stendur, en einnig gildi og mikilvægi þess að hafa mörg sjálfstæð kerfi til að auka líffræðilega fjölbreytni takmarka þannig áhættu,“ segir í tilkynningunni.

Annað stórtjón í landeldi Atlantic Sapphire á árinu

Þetta er ekki fyrsta áfall í landeldi Atlantic Sapphire á laxi á árinu. Í byrjun mars drápust 227.000 laxar í landeldisstöð félagsins í Danmörku.  Landeldisstöðin þar er sögð vera tæknileg fyrirmynd landeldisins í Flórída auk þess sem lærdómsrík mistök sem þar hafi átt sér stað hafi veitt stjórnendum þekkingu til að ráðast í verkefni að þeirri stærðargráðu sem áætlað er að laxeldið í Flórída verði.  Í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallarinnar í Ósló í mars, vegna laxdauða í landeldisstöðinni í Danmörku segir að orsökina megi rekja til þess að of hátt gildi köfnunarefna hafi greinst í vatni.

Landeldi á laxi í Danmörku hefur ekki gengið vel.

„Bráðabirgðagreining, háð frekari sannprófun á næstu dögum, bendir til hærra köfnunarefnisgildis en æskilegt er sem orsök laxadauðans,“ sagði fyrirtækið í tilkynningu til kauphallarinnar í Ósló. Í tilkynningunni kom fram að unnið væri að hönnunarbreytingum kerfa auk þess sem tafir á framkvæmdum sem auka munu gæði vatns til eldisins í Danmörku hafi haft slæm áhrif á gæði og vöxt lífmassa.

Í áætlunum Atlantic Sapphire var gert ráð fyrir að uppbygging fyrsta áfanga landeldisins í Miami muni kosta rúmlega 13 milljarða króna og framleiðslan verði 10.000 tonn á ári. Áætlaður kostnaður við endanlega uppbyggingu er tæplega 70 milljarða króna og mun framleiðslugetan verða um 90.000 tonn innan 10 ára ef áætlanir ganga eftir.