Fiskeldisblaðið

Skoðun

Grípum tækifærið

Kristján Ingimarsson skrifar:

Djúpavogshreppur náði þeim áfanga um síðustu áramót að fólksfjöldi bæjarfélagsins fór yfir 500 manns í fyrsta skipti síðan 2002.  Sveitarfélagið lenti í áfalli árið 2014 þegar Vísir hf ákvað að flytja starfsemi sína burt frá staðnum en fyrirtækið var þeim tíma stærsti vinnuveitandi staðarins.   Íkjölfarið fór fólksfjöldi niður í 422 og rætt var um að Djúpivogur yrði flokkaður sem brothætt byggð og þannig mætti fá hundruðir milljóna úr sameiginlegum sjóðum hins opinbera í hin og þessi verkefni.  En Djúpavogsbúar eru stoltir og ekki þekktir fyrir að gefast upp þó á móti blási og fólkið trúði því að úr myndi rætast.  Eftirminnilegt er myndband sem gert var í kjölfar þessa áfalls og ber nafnið Heima er best og má finna Youtube.  

Það sem öðru fremur hefur þó orðið till þess að byggðarlagið hefur rétt úr kútnum er að laxeldi hefur verið að byggjast upp á Austfjörðum og nú er það orðið svo að á Djúpavogi er eldið orðin sú atvinnugrein sem flestir vinna við, beint eða óbeint.  Fiskeldi Austfjarða stundar laxeldi í Berufirði og Búlandstindur hf sem er í eigu heimamanna í Ósnesi, Laxa fiskeldis og Fiskeldis Austfjarða rekur laxasláturhús á staðnum.  Hátt í eitthundrað manns hafa því atvinnu af laxeldinu á Djúpavogi.  Þar að auki kemur stór hliti tekna iðnaðarmanna á staðnum af þjónustu við fyrirtækin auk þess sem verslanir veitingastaðir gististaðir og aðrir hafa tekjur af þjónustu við fyrirtækin.

Fjölskyldur sem fyrir fimm árum bjuggu í óvissu og við óöryggi um framtíð sína geta nú litið björtum augum fram á veginn.  Börn á grunnskóla og leikskólaaldri eru um 20% af íbúum Djúpavogs og hér áður fyrr sáu foreldrar engin eða fá tækifæri fyrir börn sín til að fara og mennta sig og koma til baka en nú hefur þetta snúist við.  Tækifæri á sviði líffræði, viðskipta, iðnmenntunar og margra fleiri greina hafa orðið til með tilkomu eldisins og foreldrar vita að unga kynslóðin sem nú er að vaxa úr grasi, börnin sem nú eru í leikskóla, eiga þann möguleika að fara að sækja sér menntun og snúa til baka í fjölbreytt atvinnulíf sem er tengt fiskeldinu.

Þessi þróun hefur öll orðið án þess að ríkið hafi þurft að koma að þessu en þó er rétt að taka fram að með úthlutun á byggðakvóta í kjölfar brotthvarfs Vísis komst Búlandstindur hf á lappirnar og eldisfyrirtækin tóku svo við boltanum og byggðu fyrirtækið enn frekar upp.  Það sem ríkið geriri hins vegar núna er að hirða skatta af eldinu en engin atvinnugrein í uppbyggingu hefur verið skattlögð jafn harkalega og fiskeldið.   Og það sem mörgum þykir undarlegt og ósanngjarnt er að sveitarfélögin þar sem fiskeldið er stundað fá engan hlut af þeirri skattheimtu.  Þar að auki draga stofnanir lappirnar og svo er auðvitað fólk sem berst hatrammlega gegn þessari uppbyggingu og þar með gegn þessum byggðarlögum, tilverurétti og framtíð fólksins.

Fólkið sem býr á Vestfjörðum hefur eflaust svipaða sögu að segja, byggðarlög sem áður áttu undir högg að sækja hafa snúið vörn í sókn og eru farin að blómstra.  Og að einhverju leiti vegur fiskeldið upp loðnubrest þar sem útflutningstekjur fiskeldisins eru orðnar hærri en af loðnunni en betur má ef duga skal.  Tækifærin er svo sannarlega til staðar, við eigum svæði sem eru vel fallin til þess að stunda þar eldi má þar nefna Ísafjarðardjúp og firðirna fyrir austan.  Þannig mætti blása lífi í fleiri byggðarlög sem standa fallandi fæti (Sagði einhver björgum Árneshreppi?).  Í stað þess að leyfa aðeins 71.000 tonna framleiðslu á ári ættu stjórnvöld að setja sér það markmið að framleiðslan nái 150.000 tonnum á næstu árum.  Horfum til þeirrar góðu reynslu sem er af eldinu fyrir austan og vestan,  gripum tækifærið og byggjum upp til framtíðar.