Fiskeldisblaðið

Fréttir Skoðun

Breiðdalsá – dæmi um tilbúna laxveiðiá.

Dr. Þorleifur Ágústsson fiskalífeðlisfræðingur og
Dr. Þorleifur Eiríksson dýrafræðingur.

Þorleifur Ágústssons og Þorleifur Eiríksson skrifa:

Umræðan um sérstöðu íslenska laxastofnsins og hættu á erfðamengun er ekki ný af nálinni. Mikið hefur verið gert til að tryggja verndun íslenska laxastofnsins og hafa Íslendingar gengið mun lengra í þeirri viðleitni en þekkist í öðrum löndum.

Segja má að stærsta skrefið sem stigið var til verndar íslenska laxastofninum fyrir mögulegri erfðamengun frá eldislaxi hafi verið þegar þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, birti auglýsingu um friðunarsvæði við strendur Íslands þar sem segir „Auglýsing um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska (fam. Salmonidae) í sjókvíum er óheimil“ (mynd 1). Þessi mörkun svæða þýddi að ekki mátti stunda laxeldi á stærstum hluta strandsvæðis Íslands. Ákvörðun ráðherra  var ekki úr lausu lofti gripin, heldur byggði á greinargerð sérfræðinga Veiðimálastofnunar (nú Hafró) um friðun svæða fyrir eldi laxfiska í sjókvíum og í greinargerðinni var horft til þess „hvort dýrmætir náttúrulegir stofnar væru á svæðinu og hversu miklir veiðihagsmunir væru  til staðar“ (1).

http://www.fiskistofa.is/media/laxa_silungssvid/460-2004.pdf

Mynd1: Veiðimálatjóri

Mynd 1. Friðunarsvæðin við strönd Íslands merkt með rauðu þar sem eldi er bannað til varnar villtum íslenskum laxi (Veiðimálastjóri 2004).

Ár utan lokaðra svæða voru ekki taldar í hættu, enda um að ræða ár sem ekki höfðu náttúrulega laxastofna eða þá að laxastofnarnir þóttu hafa lítið verndargildi. Hér var því markvisst verið að vernda erfðaefni íslenska laxins.

En hver er þá munurinn á laxá og laxeldisá?

Staðreyndin er sú að ár sem kallaðar eru laxveiðiár eru alls ekki alltaf með náttúrulegan laxastofn, heldur eru ár, sem gætu hentað til ræktunar á laxi til stangveiða. Þetta eru gjarnan ár sem þykja fallegar og renna gjarnan í fallegu landslagi og þar sem gott væri að stunda stangveiði. Með því móti eru búnar til aðstæður fyrir veiðiáhugamenn og laxabændur til að selja veiðileyfi og stunda ferðaþjónustu. Hér er því um að ræða eldisár – laxeldisár.

Breiðdalsá er gott dæmi um slíka á og sem  hefur engan náttúrlegan laxastofn. Áin er dæmigerð á fyrir Austfirði, dragá sem er köld og næringarsnauð með miklum rennslissveiflum. Breiðdalsá var  að stórum hluta ólaxgeng frá náttúrunnar hendi þar til ákveðið var að byggja í henni laxastiga og ryðja þar með úr vegi náttúrulegri hindrun, fossinum Beljanda. Slíkar framkvæmdir eru ekki nýjar af nálinni og hafa verið stundaðar lengi,  bæði í ám sem hafa náttúrulega laxastofna og eins hinum sem aldrei hafa haft náttúrlegan laxastofn. Hér var því  markvisst búin til laxveiðiá. Þessu er ágætlega lýst í skýrslum sérfræðinga hjá Hafró (áður Veiðimálastofnun) sem lögðu m.a til að breytingar yrðu gerðar á Breiðdalsá með flutningi á grjóti og möl svo auka mætti lífslíkur sleppiseiða og einnig útbúa svæði þar sem hentugt væri að grafa hrogn í árfarveginn.

En hafa slíkar framkvæmdir skilað árangri í Breiðdalsá? Þegar skráðar seiðasleppingar í Breiðdalsá eru skoðaðar kemur í ljós að  gríðarlegu magni af laxaseiðum er búið að sleppa í ána frá því að sleppingar hófust eftir 1960. Fróðlegt er að skoða markvissar seiðasleppingar á tímabilinu 1997 til 2019, því þá kemur í ljós að búið er að sleppa tveimur milljónum, eitt þúsund og níuhundruð laxaseiðum  (2,001,900). Á sama tíma hafa veiðst tíuþúsund níuhundruð fjörutíu og einn lax (10.941). Þetta þýðir að endurheimtur eru rétt um 1,1%, ef miðað er við að helmingur fiska sem gengur í ána veiðist. Þetta teljast lélegar heimtur sé miðað við 5% viðmið í áhættumati Hafró, en það er líkan sem gert er til að spá fyrir um fjölda eldislaxa sem gætu gengið í laxár út frá stærð laxeldis.

En hvaða máli skiptir Breiðdalsá?

Í þeirri uppbyggingu sem á sér stað í fiskeldi á Íslandi hefur verið horft til þess að mikilvægar ár njóti friðunar. Slíkt er gert með fyrrgreindri auglýsingu landbúnaðarráðherra.

Í dag er komin viðbót við þessa friðun, sem er áhættumat Hafró, og sem skal taka mið af mögulegri erfðablöndun eldislax og villts lax (2). Þessi viðbót, er í dag notuð til grundvallar leyfisveitingum fyrir laxeldi í viðbót við burðarþol fjarða. En til að áhættumat Hafró skili markmiði sínu, þá er lykilatriði að ekki sé verið að tengja þá friðun þeim ám sem þegar hafa verið metnar af sömu sérfræðingum sem laxeldisár, með lítið sem ekkert verndargildi.

Niðurstaðan er því sú að með því að setja Breiðdalsá og aðrar sambærilegar laxeldisár inn í áhættumat Hafró er verið að gjaldfella áhættumatið og um leið að vinna gegn eðlilegri uppbyggingu í atvinnuvegi sem skiptir byggðir landsins miklu máli. Það er kjarni málsins.

  • Sigurður Guðjónsson (2001). Greinargerð um friðun svæða með ströndum landsins fyrir eldi laxfiska í sjókvíum. Veiðimálastofnun.
  • Ragnar Jóhannsson, Sigurður Guðjónsson, Agnar Steinarsson og Jón Hlöðver Friðriksson (2017). Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. HV 2017-027, ISSN 2298-9137.

https://www.mbl.is/200milur/frettir/2019/11/06/breiddalsa_kjorin_laxeldisa/