Mikil tækifæri fyrir íslenska laxinn í Kína

Útflutningur á íslenskum laxi til Kína er hafinn eftir að fríverslunarsamningur þjóðanna tók gildi. Verðin eru góð og fríverslunarsamningurinn gefur laxabændum hér 10-12% aukna framlegð. Frá 23. september þegar fyrsta tilraunasending úr eldiskvíum Arctic Fish í Dýrafirði hafa um 83 tonn af íslenskum laxi verið flutt til Kína og allar líkur á að útflutningur aukist hratt á næstu mánuðum. „Eins og staðan er núna er Asíu-markaður að greiða einna hæsta verðið fyrir gæðaafurðir, þó nokkuð hærra verð en fæst á Evrópumarkaði,” segir Sigurður Pétursson hjá Arctic Fish í samtali við Mbl.

Norski laxinn vinsæll í Kína

Eftirspurnin eftir laxi í Kína hefur vaxið og markaðurinn nú er um 100.000 tonn á ári og verður líklega um 240.000 tonn árið 2025. Bann við innflutningi á norskum sjávarafurðum til Kína var aflétt á síðasta ári og fyrstu 6 mánuði ársins 2019 voru 12.130 tonn af norskum laxi flutt til Kína. Það er nánasta sama magn og allt árið 2018 þegar útflutningur var 12.000 tonn.

Útflutningur á norskum laxi til Kína er 200 tonnum meiri á viku nú en árið 2018 og útlit er fyrir að Norðmenn muni flytja út 24.000 tonn af laxi til Kína á þessu ári, sem gerir Kína að áttunda stærsta markaðssvæði fyrir norskan lax.

Stærsti neytendamarkaður sjávarafurða 

Kína er langstærsti neytendamarkaður sjávarafurða. Árið 2016 var heildarmagn framleiðslu sjávarafurða í Kína 69 milljónir tonna. 56% var ræktaðar sjávarafurði og 44% voru villtar. Laxeldi á Íslandi er rétt að hefjast en útflutningsverðmæti eldisafurða nam um 1.728 milljónum króna í ágúst sem samsvarar 123% aukningu milli ára.

Fiskeldi hefur aldrei skapað meiri útflutningsverðmæti á Íslandi en nú. Útflutningur fiskeldisafurða var 1.764 tonn samanborið við 906 tonn í ágúst í fyrra. Fríverslunarsamningurinn við Kína mun skapa ungum íslenskum laxeldi tækifæri til að auka framlegð afurða sinna á stærsta sjávarafurðamarkaði í heimi þar sem eftispurn eftir laxi fer ört vaxandi.

Bætt aðgengi að mörkuðum í Asíu

Vísbendingar eru um að kínverski markaðurinn sé að opnast þar sem eftirspurn eftir sjávarafurðum er mikil og það sama má segja um alla Asíu. Flugsamgöngur frá Norður-Evrópu til Kína hafa aukist til muna og þar af leiðandi aðgangur að kínverska markaðnum með ferskum sjávarafurðum.  Eftirspurn eftir hágæða sjávarafurðum vex hratt með aukinni velmegun Kínverja. Kína er stærsti neytendamarkaður sjávarafurða í heimi. Fríverslunarsamningurinn við Kína mun skapa íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi mikil tækifæri.  Fríverslunarsamningur Kína og Chile tók gildi árið 2016 og er Chile stærsti innflytjandi á laxi til Kína.