Fiskeldisblaðið

Fréttir

Risa fjárfesting færeyinga í skosku laxeldi

Bakkafrost í Færeyjum hefur keypt meirihluta hlutafjár í The Scottish Salmon Company í Skotlandi. Í yfirlýsingu sem fyrirtækið sendi frá sér á miðvikudagskvöldið segir að Bakkafrost hafi greitt 78 milljarðar íslenskra króna fyrir 68,6% hlut í skoska laxeldisfyrirtækinu.  Bakkafrost hefur skuldbundið sig til að gera öðrum hluthöfum í félaginu tilboð á sömu forsendum.

„Stjórn félagsins er ánægð með niðurstöðuna og söluverðið endurspeglar þau verðmæti sem við höfum skapað á undanförnum árum,“ segir Robert Brown III stjórnarformaður Scottish Salmon Company. „Við erum stolt af árangri okkar. Fyrir hönd stjórnar þakka ég stjórnendateyminu, starfsmönnum, viðskiptavinum og öllum hagsmunaaðilum sem hafa átt þátt í uppbyggingu félagsins.“

Craig Anderson, forstjóri Scottish Salmon Company telur tilboðið vera gott og í þágu allra hluthafa. „Ég er stoltur af frammistöðu starfsmanna okkar sem hafa stuðlað að því að byggja upp mjög sterkt fyrirtæki. Stjórnendateymi okkar mun vinna náið með nýjum eigendum og samræma stefnumótun og áhrif kaupanna fyrir hagsmunaaðila Scottish Salmon Company,“ segir Craig.

Landfræðilega eru Færeyjar stutt frá Skotlandi en fyrirtækjamenningin er ólík og í raun margt í menningu þjóðanna. Færeyskir og skoskir eldislaxar eru úrvalsafurðir og afurðaverð hefur verið hærra en eldislaxa frá Noregi og Chile. Fyrir utan hátt afurðarverð á skoska laxeldið ekki margt sameiginlegt með laxeldi í Færeyjum.

Scottish Salmon Company hefur þótt illa rekið fyrirtækið og framleiðslukostnaður hár. Bakkafrost í Færeyjum hefur hinsvegar náð gríðarlegum árangri undir forystu Regins Jacobsen sem hefur gengt lykihlutverki í að endurreisa fiskeldisiðnaðinn sem nú er burðarás útflutningstekna Færeyja.  Það má búast við því að Regin muni gera miklar breytingar á rekstri Scottish Salmon Company og mikil tækifæri eru talin í samlegð á rekstri Scottish Salmon Company og Bakkafrost.

Bakkafrost hefur nýverið tekið í notkun mjög fullkomna verksmiðju þar sem öll framleiðsla félagsins á sér stað undir einu þaki þar á meðal framleiðsla á fóðri.  Bakkafrost fóðrið inniheldur meira fiskimjöl en tíðkast sem hefur m.a. skapað þeim sérstöðu á markaði og hærra afurðarverð.  Líklegt er að verksmiðja Bakkafrost í Færeyjum muni í framtíðinni þjóna enn stærra hlutverki í vinnslu á skoska laxinum.

Færeyjingar hafa framleitt rúmlega 70.000 tonn af laxi á ári en nú bætast við 30.000 tonn af skoskum laxi og nýjar áskoranir þegar kemur að vinnslu afurða fyrir skoska markaðinn. Framleiðslugeta Scottish Salmon Company getur orðið allt að 50.000 tonn sem er sambærileg framleiðslu Bakkafrost nú.  Takist Bakkafrost að lækka framleiðslukostnað og endurskipuleggja rekstur Scottish Salmon Company þannig að EBIT/ kíló verði nálægt þeim árangri sem Bakkafrost hefur náð síðustu ár er ljóst að vöxtur félagsins mun aukast verulega á næstu árum.

Sjókvíeldi í Færeyjum hefur að mestu verið óumdeilt. Þar eru engar laxveiðiár og færeyingar hafa ekki þurft að taka slagi við andstæðinga eldisins. Það verður því ný áskorun fyrir eigendur Bakkafrost að takast á við andstæðinga sjókvíeldis í Skotlandi þar sem er sterk laxveiðimenningu og ferðaþjónustu henni tengd sem berjast harðlega gegn sjókvíeldi.

Scottish Salmon Company þykir hafa staðið sig illa í að byggja upp orðspor laxeldisins í Skotlandi með veiku PR (almannatengslum) og takmarkaða áherslu á nauðsynlega samskiptastefnu.  Það verður því eitt mikilvægasta verkefni Bakkafrost að búa sig undir grjótharða baráttu við andstæðinga sjókvíeldis í Skotlandi. Móta samskiptastefnu og byggja upp ímynd skoska eldislaxins.