Drög sögð fela í sér afturvirkni

Eftirfarandi frétt birtist í Morgunblaðinu í dag;  „Stjórnarformaður Arnarlax segir drög að breytingartillögu horfa framhjá misræmi milli fyrirtækja í fiskeldi Framsögumaður meirihlutans segir tillöguna drög sem verði rædd betur í atvinnuveganefnd“

Í drögum að breytingartillögu, sem meirihluti atvinnuveganefndar hyggst kynna, á frumvarpi um breytingar á lögum um fiskeldi, er gert ráð fyrir að annaðhvort hafi málsmeðferð samkvæmt lögum um umhverfismat verið lokið, eða að frummatsskýrslu hafi verið skilað inn til Skipulagsstofnunar til að umsóknir um leyfi til laxeldis sem lagðar voru inn undir núgildandi lögum haldi gildi sínu. Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax hf., segir að verði þessi tillaga að lögum, muni það þýða að samkeppnisaðilar fyrirtækisins muni halda sínum umsóknum óskertum, en að tvær leyfisumsóknir félagsins muni falla niður, þar sem frummatsskýrslu hafi ekki verið skilað inn.

„Ég skil ekki hvernig atvinnuveganefnd getur horft framhjá þessu augljósa misræmi milli fyrirtækjanna, og þau virðast alls ekki taka tillit til jafnræðis,“ segir hann. Hann segir breytinguna fela í sér veruleg inngrip fyrir fyrirtækið. „Í Arnarfirði liggur bæði burðarþolsmat og áhættumat fyrir, og þar er umsókn um stækkun á núverandi leyfi innan burðarþolsmats og áhættumats. Samkvæmt þessari skilgreiningu myndi það leyfi líka falla niður, sem er okkur sérstaklega sárt,“ segir Kjartan. Kjartan bendir á að laxeldi feli í sér langt framleiðsluferli. „Þau hrogn sem við tökum í stöðina í dag verða ekki að tekjum fyrr en eftir þrjú ár, þannig að það þarf að áætla leyfisumsóknir og leyfisferla yfir langt tímabil.“ Kjartan bendir einnig á að fyrirtækið hafi verið byggt upp undanfarin níu ár, en fyrstu seiðin voru sett í sjó í júlí 2010 og fyrsta slátrunin fór fram árið 2011. „Við höfum fjárfest verulega í uppbyggingu í seiðastöðum, bæði í Þorlákshöfn og í Tálknafirði, við höfum byggt upp vinnslu í Bíldudal og fóðurstöð og auðvitað sölueiningu, og þannig fjárfest verulega í öllum hlutum virðiskeðjunnar síðastliðin níu ár.“ Útflutningur á eldisafurðum er í dag um 10% af verðmæti útflutningsafurða í sjávarútvegi. Kjartan segir því, að fyrirhuguð drög feli í raun í sér að löggjöfin verði afturvirk í eðli sínu, þar sem með breytingunum sé gripið inn í langt ferli sem Arnarlax hafi fylgt við leyfisumsóknir sínar. „Mér hefði þótt eðlilegt og jafnvel sanngjörn krafa, að horft yrði til lagaskila, þannig að okkur gæfist sanngjarn frestur til að klára þessa vinnu,“ segir Kjartan að lokum.

Drögin rædd milli umræðna

Kolbeinn Óttarsson Proppé, framsögumaður meirihluta atvinnuvega- nefndar í málinu, segir að um sé að ræða drög að lausn sem kynnt hafi verið öðrum í nefndinni og að eftir sé að ræða þau á vettvangi nefndarinn- ar.

Athygli vakti við upphaf framsögu- ræðu Kolbeins, að hann dró þá til baka breytingartillöguna sem sneri að meðferð umsókna og tilkynnti að ný tillaga yrði lögð fram milli annarrar og þriðju umræðu frumvarps- ins. „Það kemur fram í nefndarálitinu skýr vilji nefndarinnar til að loka dyrunum á eftir gamla kerfinu og láta nýja kerfið taka við,“ segir Kol- beinn. Í upphaflegri tillögu hafi falist ákveðin tillaga um hvar ætti að draga línuna, en að komið hafi fram ábend- ingar sem sýndu að sú leið sem lögð var til hefði ekki verið sú besta. „Þess vegna ákváðum við að fara í þá vinnu að finna hvaða leið myndi best ná fram vilja nefndarinnar, og eins og ég kynnti í umræðunum verður unnin breytingartillaga sem lögð verður fram.“

Kolbeinn áréttar að annarri umræðu er ekki enn lokið, og málið er því ekki komið formlega aftur til nefndarinnar. „Þannig að það sem við erum að vinna með núna er hugmynd að lausn, sem við vinnum þá betur á milli annarrar og þriðju umræðu.“