Fiskeldisblaðið

Fréttir

Staðreyndir um fiskeldi á Vestfjörðum

Af vef Vestfjarðarstofu.

Vestfjarðastofa hefur tekið saman staðreyndir um fiskeldi á Vestfjörðum, með því vill Vestfjarðastofa leggja sitt lóð á vogarskálar hófstilltrar umræðu um atvinnugrein sem við teljum að skipti Vestfirði miklu máli til framtíðar.

Fiskeldi er sú atvinnugrein sem vaxið hefur hvað mest á Vestfjörðum á undanförnum árum. Greinilegar jákvæðar breytingar hafa orðið á byggðaþróun á sunnanverðum Vestfjörðum sem rekja má til vaxtar fiskeldis á svæðinu. Yfir 300 störf hafa orðið til á því svæði sem rekja má beint eða óbeint til fiskeldis og greinilegt er að ungt fjölskyldufólk er að snúa aftur „heim“.

Hin efnahagslegu áhrif eru að atvinnutekjur frá fiskeldi á Vestfjörðum fjórtánfölduðust milli áranna 2008 og 2016. Útflutningsverðmæti eldisafurða var 14 milljarðar árið 2017 og er nú svo komið að eldislax er verðmætari en þorskur á Vestfjörðum.

Mikilvægt er að hafa í huga að fiskeldi er umhverfisvæn atvinnugrein og er kolefnisspor framleiðslunnar lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis. Fyrirtækin sem standa að fiskeldi á svæðinu leggja ríka áherslu á umhverfismál og er öll framleiðsla laxeldisfyrirtækjanna nú vottuð með ASC umhverfisvottun. Að auki er vert að hafa í huga að fiskeldi hefur þróast mikið á undanförnum árum og er aðeins leyft á örfáum stöðum á Íslandi til að koma í veg fyrir erfðablöndun við villtan lax.

Mikilvægi atvinnugreinarinnar fiskeldis fyrir Vestfirði er ótvírætt. Þar er um að ræða nýja atvinnugrein sem hefur burði til að vaxa og verða ásamt sjávarútvegi og ferðaþjónustu burðarás atvinnulífs og samfélaganna á svæðinu.

Staðreyndablaðið má finna hérna.