Fiskeldisblaðið

Fréttir Skoðun

Fiskirækt. Náttúruvernd eða landbúnaður?

 

Dr. Þorleifur Ágústsson
Dr. Þorleifur Eiríksson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2019

Þorleifur Ágústsson og Þorleifur Eiríksson skrifa:

Í umræðunni um fiskeldi á Íslandi er mikið talað um neikvæð áhrif sem hljótast af því að eldisfiskur sleppur og gengur upp í laxveiðiár. Þessi umræða endurspeglast í áhættumati Hafrannsóknarstofnunar (1).

Sumir kjósa að taka mun dýpra í árinni og fullyrða að ef eldisfiskur sleppi séu endalok íslenska laxins handan við hornið. Þrátt fyrir að ekki liggi neinar beinar niðurstöður til grundvallar slíkri túlkun ber þó auðvitað að fara varlega. Á þetta bendir hinn þekkti vísindamaður Kevin Glover í samskiptum við Hafró í janúar síðastliðnum og sem fram kemur í svari deildarstjóra Hafró við fyrirspurn lektors við háskólann á Hólum. Sami höfundur heldur áfram og bendir réttilega á að verndun líffræðilegs fjölbreytileika sé mikilvæg og að hann beri að varðveita (2). Þetta er lykilatriði. Verndun líffræðilegs fjölbreytileika byggir á að ekki verði neinar erfðabreytingar af manna völdum.

Í umræðunni um slysasleppingar er talað um að eldislax gangi í laxveiðiár, æxlist við lax sem fyrir er í ánni og niðurstaðan verði laxar – blendingar eldislaxa og villtra laxa – sem séu ekki aðlagaðir viðkomandi á. Athyglisvert er að þrátt fyrir að fiskarnir séu ekki aðlagaðir ánni er gert ráð fyrir því að þeir hrygni, seiðin komist vel af og svo haldi þetta áfram þangað til afkomendur þessara laxa, verði í meirihluta; hafi tekið yfir ána og ekkert blasi við nema hrun nátturlega laxastofnsins.

Á sama tíma er stunduð umfangsmikil fiskirækt í íslenskum laxveiðiám. Villtur lax er valinn nær eingöngu út frá stærð, honum safnað, hrogn kreist út, frjóvguð og seiðin alin í eldisstöðvum. Seiðunum er svo sleppt sem gönguseiðum í ána til að auka fiskigengd.

Markmið veiðirétthafa með sleppingum á ræktuðum seiðum er að rækta upp ár, það er að fjölga einstaklingunum sem ganga í árnar og gera þannig árnar arðbærari fyrir þá sem þær eiga eða leigja.

Ræktun á laxám og verndun þeirra er ekki það sama. Ræktun fylgja hættur, ekki einungis breytingar á erfðamengi villta laxins, heldur einnig bein neikvæð áhrif á lífssögu laxins og möguleikum hans á að koma upp afkvæmum. Á þetta hefur verið bent í fjölmörgum vísindagreinum og ber að taka alvarlega (3).

Ef að markmiðum veiðirétthafa er náð og fleiri laxar ganga upp í á til hrygningar eykst þéttnin. Það hefur í för með sér aukna samkeppni um hrygningasvæði og jafnframt hættu á að svæði, sem búið er að hrygna í, sé raskað.

Þetta leiðir af sér að hrognafjöldinn eftir klak er mun meiri en ef einungis væri sjálfbær stofn í ánni. Eitthvað af hrognunum væri líklegast á óviðunandi klaksvæðum og klekktist ekki, en samt mætti búast við mun meira klaki en væri við sjálfbærar aðstæður. Nýklakin seiði þurfa að éta og mikil þéttni þýðir mikil samkeppni um fæðu sem getur auðveldlega leitt til fæðuskorts með hlutfallslega meiri afföllum en væru við eðlilegar aðstæður.

Núverandi aðferðir við fiskirækt í íslenskum laxveiðiám eru því markvisst að draga úr náttúrlegri fjölbreytni í ánum – minnka genafjölbreytni í laxastofnum og breyta vistkerfum. Þetta er því dæmi um landbúnað sem kallast fiskirækt en ekki verndun náttúrulegs stofns.

Þetta er verulegt áhyggjuefni, ekki síst í ljósi mikillar aukningar í sleppingum seiða í ár á Íslandi (4,5). Hér er því í raun og veru verið að vinna gegn náttúrulegu vali. Eina leiðin til að íslenskar laxveiðiár geti talist náttúrlegar er að í þeim sé ekki stunduð fiskirækt.

Þá eru ónefndar alvarlegar afleiðingar sem fiskirækt getur haft á lífsskilyrði annarra íslenskra laxfiska, urriða og bleikju. Má þar nefna byggingu laxastiga og því að hleypa laxi inn á svæði þar sem einungis þessar tegundir höfðu verið áður. Framleiðslan á laxi eykst mikið, en líffræðileg fjölbreytni hrynur.

Af náttúrverndarástæðum væri mikilvægt að friða eina eða fleiri íslenskar laxveiðiár fyrir inngripum af öllu tagi, nema hóflegri veiði. Hér væri því í raun verið að tryggja, ekki ósvipað og gert hefur verið þegar land hefur verið tekið undir þjóðgarð, að íslenska laxveiðiáin með íslenska laxinum fái að dafna og þroskast án inngrips okkar mannanna. Að varðveisla líffræðilegs fjölbreytileika í stofni íslenska laxins verði varinn – hinn raunverulegi íslenski genabanki.

Það á að vera skilyrði að fiskirækt fylgi reglum er varða umhverfismat svo tryggja megi að hverjar þær breytingar sem eiga sér stað séu afturkræfar – ekki ólíkt því og krafist er þegar um framkvæmdir er að ræða – hvort sem það er vegagerð eða fiskeldi á landi eða í sjó. Ekki er síst mikilvægt að upplýsingar um fiskirækt, ræktun og sleppingu seiða, séu opnar öllum almenningi. Laxinn er jú eign þjóðarinnar eins og fiskurinn í sjónum.

Þetta er mikilvægt atriði í ljósi þess að landbúnaður verður seint flokkaður sem náttúruvernd.

Heimildir

1) https://www.hafogvatn.is/

2) https://www.hafogvatn.is/is/moya/news/svor-vid-athugasemdum-er-luta-ad-ahaettumati

3) www.pnas.orgcgidoi10.1073pnas.1037274100

4) http://www.bb.is/2019/02/storfelldar-seidasleppninga-i-laxveidar/

5) Morgunblaðið 20. febrúar, bls. 18.

________________________

Viðbót Fiskeldisblaðsins:

Meðfylgjandi er linkur á sjónvarpsþáttinn Landinn á RÚV en þar er mjög áhugaverð umfjöllun þar sem m.a. sést hvernig bændur í Kjós rækta seiði til sleppinga.  Innslagið er annað efni þáttarins. Byrjar c.a. á mín 1:45.

http://www.ruv.is/sjonvarp/spila/landinn/25783ep=89lip1&fbclid=IwAR1yw67Nm9l0yQDZ9NajEhs8Bk_HwcMLLqLdkHc2lDVZS56GSV1ztVkqg8