Fiskeldisblaðið

Skoðun

Engin skítahrúga hjá sjókvíaeldi

Þorleifur Eiríksson og Guðmundur Víðir Helgason dýrafræðingar og verkefnastjórar hjá Rorum ehf rannsóknum og ráðgjöf í umhverfismálum skrifa:

Í opinberri umræðu í fjölmiðlum um laxeldi í sjó hefur verð látið
að því liggja að fóðurleifar og skítur safnist upp stjórnlaust undir sjókvíum og að það stefni í meiriháttar hrun á lífríki íslenskra fjarða.

Að sjálfsögðu er reynt að skýra málin jafnóðum, útskýra einstök atriði og benda á hvernig stöðug vöktun og stýring kemur í veg fyrir varanleg vandamál, en það er eins og þessar skýringar komist ekki til skila og oft er látið eins og þær séu ekki handbærar.

Í ljósi þessarar stöðu óskaði Laxar fiskeldi eftir því að RORUM gerði stutta greinargerð sem auðvelt væri að vitna í varðandi meginþætti málsins.

Sjókvíaeldi á laxi er landbúnaður

Sjókvíaeldi á laxi er landbúnaður eins og annað fiskeldi á landi eða í sjó. Landbúnaður er nauðsynlegur til að sjá mannkyni fyrir fæðu og fleiri nauðþurftum en hefur að sjálfsögðu áhrif á umhverfið, bæði skammtímaáhrif og varanleg áhrif.

Mismunandi tegundir landbúnaðar hafa mismikil áhrif. Þannig hefur sauðfjárrækt haft gríðarmikil áhrif á íslenskt gróðurlendi og skógrækt er að umbreyta stórum hluta landsins. Kartöflurækt er mjög áberandi í kartöfluræktarhéruðum eins og Þykkvabæ og Hornafirði og gróðurhús setja svip á umhverfið í ylræktarhéruðum.

Eins og frá öðrum landbúnaði, svo sem mjólkurframleiðslu þar sem fjóshaugurinn er sjálfsagður hlutur, kemur lífrænn úrgangur frá fiskeldi og er sá úrgangur aðallega skítur. Þar sem mikið er af fiski í kvíum kemur mikið magn af lífrænum úrgangi, sem getur haft umtalsverð áhrif á umhverfið.
Til þess að lágmarka þessi áhrif og gera þau ásættanleg og fiskeldið sjálfbært er byrjað að huga að þessu strax við skipulag fiskeldisins og mat á umhverfisáhrifum.

Í kvíunum eru myndavélar þar sem fylgst er með hvernig fiskurinn tekur fóður

Hér á árum áður þegar fiskeldi í sjókvíum var að byrja var vannýtt fóður mikið vandamál, bæði umhverfislega og rekstrarlega. Síðan hefur verið unnið í þessu máli og nú er fóður sem fellur til botns við fiskeldiskvíar hverfandi. Í kvíunum eru myndavélar þar sem fylgst er með hvernig fiskurinn tekur fóður og þegar hann gerir það ekki er hætt að gefa. Þó að fóðurnýting sé góð kemur úrgangur frá fiskunum sjálfum rétt eins og öðrum húsdýrum. Hluti af þessum úrgangi dreifist í vatnsbolnum, það er sjónum á milli botns og yfirborðs, og eitthvað leysist upp og eykur magn næringarefna eins og niturs og fosfórs, en meirihluti úrgangsins fellur til botns í næsta nágrenni sjókvíanna.

Áður en fyrirtæki hefja undirbúning að fiskeldi á einhverju svæði, eins og t.d. einum firði, verður Hafrannsóknastofnun að gera burðarþolsmat og ákveða hversu mikið fiskeldi má vera á svæðinu að hámarki. Þetta mat er byggt á mælingum á straumi og fleiri umhverfisþáttum og getur tekið töluverðan tíma. Liggi burðarþolsmat fyrir er hægt að byrja undirbúning fiskeldis og hefja mat á umhverfisáhrifum. Það ferli byrjar með því að væntanlegt fiskeldisfyrirtæki leggur fram tillögu að matsáætlun, þar sem gert er grein fyrir þeim rannsóknum sem nauðsynlegt er að gera áður en leyfi til fiskeldis verður gefið. Þegar matsáætlun hefur verið samþykkt af Skipulagsstofnun eru nauðsynlegar rannsóknir framkvæmdar og gert grein fyrir þeim og fyrirliggjandi upplýsingum í frummatsskýrslu, sem eftir ítarlega umfjöllun Skipulagsstofnunar endar í samþykktri matsskýrslu.

Bæði Tillaga að matsáætlun og Frummatsskýrsla eru sendar mörgum stofnunum til umsagnar, þar á meðal Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, Hafrannsóknarstofnun og Fiskistofu, en einnig sveitarfélögum. Almenningi og hagsmunaaðilum er líka gert kleift að koma að athugasemdum og tillögum bæði við Tillögu að matsáætlun og frummatsskýrslu.

Sjókvíaeldi er ekki leyft á ákveðnu svæði nema að varanleg áhrif séu talin ásættanleg.

Strax við mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis er þess krafist að ítarlega sé gert grein fyrir hugsanlegum áhrifum af lífrænum úrgangi og hugsanlegri uppsöfnun. Sjókvíaeldi er ekki leyft á ákveðnu svæði nema að varanleg áhrif séu talin ásættanleg. Tekið er mið af því í fyrsta lagi að ekki sé sjaldgæft eða á annan hátt sérstakt lífríki á botninum sem verði fyrir skaða og í öðru lagi að ekki verði varanleg uppsöfnun á lífrænum efnum sem geti valdið óafturkræfum skaða á samfélögum dýra á botninum.

Þegar úrskurðað hefur verið um mat á umhverfisáhrifum þannig að fiskeldi sé leyfilegt á ákveðnu svæði, er sótt um rekstrarleyfi hjá Matvælastofnun (MAST). Í rekstrarleyfi MAST eru ákvæði um að fiskeldiskvíar og annar búnaður standist staðalinn NS 9415.E:209.Jafnframt er sótt um starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun (UST). Í starfsleyfi Umhverfisstofnunar er gerð krafa um vöktunaráætlun, þar sem gert er grein fyrir nauðsynlegri vöktun á ástandi botnsins, bæði ástandi botndýrasamfélaga og hugsanlegri uppsöfnun efna í botnseti, þ.e. leir sem safnast hefur upp á botninum í áranna rás. Til dæmis er heildarmagn lífræns kolefnis (TOC) í botnseti mælikvarði á uppsöfnun lífrænna leifa. Einnig er nauðsynlegt að fylgjast með aukningu næringarefna í vatnsfasanum. Þessi vöktunaráætlun þarf að vera í samræmi við staðalinn IS0 12878:2012. Umhverfistofnun fylgist með því að ákvæðum starfsleyfisins sé fylgt og gefur út eftirlitsskýrslur.

Upplýsingar aðgengilegar á opinberum á vefsíðum 

Þegar búið er að ákveða nákvæmlega staðsetningu kvía, en áður en nokkur fiskur er látinn í þær er nauðsynlegt að taka viðmiðunarsýni, bæði úr botnseti og sjónum í nágrenni kvíanna. Tekin eru sýni af botnseti á þremur sýnatökustöðvum og einni til viðmiðunar. Bæði eru tekin sýni til að skoða samfélög botndýra og einnig vegna uppsöfnunar efna. Venjulega er greint heildarkolefni (TOC) í botnseti til að kanna uppsöfnun á lífrænum efnum.

Einnig er tekið vatnssýni á einni stöð og annarri til viðmiðunar. Úr vatnssýnum er greint heildarmagn niturs (köfnunarefnis) og fosfórs, sem eru mikilvæg áburðarefni og geta stuðlað að þörungablóma. Vöktunarskýrslum er skilað til Umhverfisstofnunar þar sem þær eru opinberar á vefsíðu stofnunarinnar.

Að lokum eyðist haugurinn.

Það er vitað að skíturinn safnast mest í næsta nágrenni kvíanna. Skíturinn eyðist ekki jafnóðum þegar mikið er af fiski í kvíum, en sé svæðið hvílt eftir að slátrun er lokið eyðist lífræni úrgangurinn. Uppsafnaður lífrænn úrgangur er brotinn niður af lífverum
í setinu. Í efsta lagi setsins eru dýr sem nýta sér þetta lífræna efni og þar eru fremstir burstaormar af mismunandi tegundum, sem fjölgar oft mikið, t.d. Capitella capitata af ættinni Capetllidae og Malacoceros fuliginosus af ættinni Spionidae. Þetta eru líka tegundirsem eru notaðar sem vísitegundir á uppsöfnun lífrænna efna, en þegar haugurinn minnkar fækkar þeim aftur. Í efsta laginu eru líka loftháðar bakteríur sem halda áfram að brjóta niður lífræna efnið, þegar dýrin skila því af sér.

Eftir því sem þetta lag verður þykkra minnkar súrefnið neðst í laginu og hverfur að lokum alveg og þá verður rotnun bara af völdum loftóháðra baktería og þær mynda t.d. brennisteinsvetni (H2S), sem er eitrað. Talað er um að svæðið sé í hvíld og tíminn sem það tekur úrganginn að eyðast er kallaður hvíldarími. Þessi tími lengist eftir því sem lífræni úrgangurinn er meiri og hverfi súrefnið lengir það tímann, en að lokum eyðist haugurinn.

Áður en ný kynslóð fisks er sett í kvíarnar eru tekin sýni og ekki er leyft að setja fisk út eftir slátrun úr kvíum nema að sýni tekin við vöktunina standist viðmið.

Stundum eru einnig notaðir vottunarstaðlar til viðmiðunar, þar sem farið er fram á önnur og strangari skilyrði en í ISO staðlinum.

Það er auðvitað fjarri sanni eins og ýjað hefur verið að í opinberri umræðu undanfarið að við sjókvíaeldi sé skítur og annar úrgangur látinn hlaðast upp undir kvíunum óhindrað. Það rétta er, eins og gert hefur verið grein fyrir hér á undan, að fylgst er nákvæmlega með lífrænum úrgangi frá sjókvíaeldi og tryggt er með nákvæmri langtímavöktun að sá úrgangur safnist ekki upp heldur að hann eyðist og að umhverfi kvía sé í samræmi við viðurkennda staðla.