Er laxeldi í sjókvíum bannað í Noregi?

Gunnar Davíðsson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Troms fylki í Norður-Noregi skrifar:

Það virðist algengur misskilningur eða missögn í umræðu um laxeldi á Íslandi, að lokað hafi fyrir útgáfu á eldisleyfum fyrir sjókvíaeldi í Noregi, og að það sé meiginástæða þess að Norðmenn sæki nú til Íslands með eldi í sjókvíum. Því er haldið fram að aðeins sé hægt að fá ný leyfi sé eldið flutt upp á land eða í lokaðar sjókvíar. Þetta er alls ekki rétt, ný leyfi fyrir laxeldi í opnum sjókvíum eru gefin út og sett í rekstur meðfram mestallri strönd Noregs nánast í viku hverri.

Fiskeldi í Noregi hefur þróast frá því að vera lítil atvinnugrein upp í stóriðnað á um það bil 40 árum. Fyrstu árin voru í raun ekki gefin út leyfi en leyfisveitingar hófust skömmu fyrir 1980. Eldið er nú háð leyfum sem takmarka framleiðslu í svokölluðum hámarks lífmassa í tonnum. Þannig er takmarkaður hámarks lífmassi sem hvert fyrirtæki má hafa í sjó, bæði samtals og á hverri eldisstöð fyrir sig. Lífmassi merkir hér hversu mörg tonn af fiski fyrirtækið má vera með í eldi á hverjum tímapunkti.

Hér má sjá tölur yfir útgefin ný starfsleyfi eftir 1980 en alls hafa til þessa verið gefin út rúmlega þúsund leyfi fyrir rúmlega 1 milljón tonna lífmassa í öllum Noregi. Leyfin eru að öllu jöfnu fyrir um 780 tonna lífmassa en geta verið misjöfn að stærð eftir því hvar og hvenær þau voru gefin út.

1981 50 ný leyfi
1984 100 ný leyfi
1985 150 ný leyfi
1989 30 ný leyfi
1989-2002 þreföld stækkun allra eldri leyfa 2002 40 ný leyfi

2003/4 60 ný leyfi

2005 öll eldri leyfi stækkuð um 30%

2009 65 ný leyfi

2011 leyfi í Troms og Finnmark fylkjum stækkuð um 5%

2013 45 ný leyfi
2016 eldri leyfi má auka úr 780 tonnum í

838 tonn

Árið 2016 hófst útgáfa þróunarleyfa, en aðeins lokuð eldisker, úthafsbúr og „eldis- skip“ hafa fengið slík leyfi.

2018 um 20 ný leyfi (fyrir um 16 þúsund tonna lífmassa)

Auk ofangreindra leyfa hafa verið gefin út ýmis sérleyfi til eldisrannsókna, sýningaleyfi og leyfi fyrir menntastofnanir og skóla. Alls hafa um 50 slík leyfi (um 40.000 tonna lífmassi) verið gefin út.

Þegar norska sjávarútvegsráðuneytið gefur út starfsleyfi þá getur það legið lengur eða skemur áður en það er sett í rekstur. Fyrirtæki sem fá starfsleyfi þurfa, áður en rekstur hefst, að sækja um rekstrarleyfi á eldisstað sem hentar fyrir eldið og þurfa þá að uppfylla ákveðin skilyrði um vistvænan og ábyrgan rekstur.