Íslenski laxinn er fyrsta flokks!

Mikilvæg tímamót hafa átt sér stað árið 2018 í sjókvíelda á Íslandi. Þrjú fyrirtæki í sjókvíeldi hafa hafið útflutning á íslenskum laxi Arnarlax á Bíldudal, Fiskeldi Austfjarða í Berufirði og nú Laxar í Fjarðabyggð. Árið 2019 mun svo Arctic Fish á Vestfjörðum hefja slátrun og útflutning.  Íslenski laxinn er ræktaður við einstakar aðstæður í íslenskum fjörðum þar sem sjórinn er hreinn og kaldur sem lengir ræktunartíma en eykur á sama tíma gæði afurða og markaðslega sérstöðu íslenska laxins.

Laxar fiskeldi ræktar lax allt frá klaki til slátrunar.  Fyrirtækið rekur tvær seiðaeldisstöðvar að Bakka og Fiskalóni í Ölfusi auk þess sem landstöð er starfrækt í Þorlákshöfn. Sjókvíeldi laxa er í Reyðarfirði þar sem fyrirtækið hefur leyfi til að framleiða allt að 6000 tonnum af laxi í sjókvíum á þremur stöðum en fyrirhuguð framleiðsla félagsins á Austfjörðum til lengri tíma litið mun nema um 25.000 tonnum. 

Markmið Laxa fiskeldi ehf er að setja á fót eldisfyrirtæki þar sem þekking er í fyrirrúmi en jafnframt fjárhagslegur styrkur til að takast á við þær áskoranir sem kunna að koma upp í uppbyggingu.   Gunnar Steinn Gunnarsson, fiskifræðingur, hefur áratuga reynslu af laxeldi bæði hér heima og í Noregi. Hann er einn af frumkvöðlum í þeirri uppbyggingu sem nú hefur átt sér stað í uppbyggingu á sjókvíeldi í íslenskum fjörðum.

Nú hófuð þið slátrun í lok nóvember,  hvernig var tilfinningin og hvernig metur þú gæði fyrstu afurða Laxa sem nú eru á leið á markað?  Það var stórkostleg tilfinning að sjá laxinn skila sér í brunnbátinn og vera sendan til slátrunar eftir 18 mánaða framleiðsluferli í sjókvíunum. Gæðin eru fyrsta flokks, allir mælikvarðar eru eins og best verður á kosið og vöxtur mun betri en gengið var út frá .

Hversu mörg störf hefur laxeldið skapað á Austfjörðum nú þegar og í ljósi gæði afurða hversu mörg störf telur þú að hægt væri að skapa til framtíðar?  Getur laxeldið með einhverjum hætti aukið lífsgæði á Austfjörðum?  Starfsemi Laxa fiskeldis hefur nú þegar skapað 38 bein störf hér á Austfjörðunum, 18 bein störf við fiskeldið hjá Laxar og um 20 manns starfa við slátrun hjá Búlandstindi. Einnig hafa fjölmörg afleidd störf skapast og má þar nefna 3 störf hjá K-tech sem er köfunar þjónusta staðsett Reyðarfirði, 6 til 8 störf hjá Johnson Island og Egersund er að byggja netaþvottastöð fyrir fiskeldi á Eskifirði. Þar fyrir utan skapast aukin velta og fleiri verkefni hjá fjölda fyrirtæki sem þjónusta fiskeldið.

Starfsemi Laxa fiskeldis getur skapað töluvert fleiri störf ef vöxtur fyrirtækisins verður sá sem lagt hefur verið upp með. Forsenda þess er að fyrirtækið fái þau leyfi sem sótt hefur verið um og að þau verði afgreidd samkvæmt gildandi lögum og í samræmi við burðarþolsmat fjarðanna.

Laxeldi hefur jákvæð áhrif á lífsgæði á Austurlandi sem almennt eru mjög góð fyrir. Með tilkomu laxeldisins skapast fjölbreyttari störf og sem styrkja þær stoðir sem fyrir eru á Austfjörðum. Á svæðinu er nú þegar blómlegt atvinnulíf en einna helst hefur vantað upp á fjölbreytileikann.

Hátæknibúnaður til fóðrunar og eftirlits gerir laxeldið umhverfisvænt og öruggar en áður.

Töluverð umræða hefur átt sér stað um að sjókvíeldi hafi slæm áhrif á umhverfið,  úrgangur safnist upp undir kvíum?  Þessi umræða um mengun kemur mér einkennilega fyrir sjónir í ljósi þess að fiskeldi er ein umhverfisvænasta matvælaframleiðsla sem fyrir finnst. Sú fullyrðing að firðirnir muni fyllast af úrgangi vegna laxeldis er einfaldlega röng. T.a.m. var gefin út skýrsla í Noregi árið 2011 af Hafrannsóknarstofnun Noregs í samstarfi við umhverfisráðuneytið þar sem viðamikil rannsókn var gerð á áratuga vöktunum á tveim fjörðum þar sem umtalsvert framleiðslumagn er leyfilegt, t.d. 60.000 tonn í Hardangerfirði og rúmlega 100.000 tonn í Bognafirði. Niðurstaðan var afgerandi. Rannsóknirnar sýndu að eldið hafði ekki haft nokkur áhrif frá árinu 1947 og ástand fjarðanna var það sama og fyrir tilkomu laxeldisins. Til eru fleiri skýrslur sem sýna sömu niðurstöður. Einnig hefur vöktun fiskeldisstöðva í Noregi leitt í ljós að ástand umhverfis 89% af fiskeldisstöðvunum er mjög gott eða gott meðan aðeins 1% slæmt eða mjög slæmt (Fiskeridirektoratet 2015). Laxar hafa einnig fengið niðurstöður úr vöktun frá Gripalda, Þar var ástand mjög gott undir og í kringum kvíar á eldissvæðinu.

Er hætta á að sleppingar muni geta haft áhrif á erfðarmengi villta laxins?  

Það er afar ósennilegt að sleppingar úr eldi geti haft áhrif á erfða mengi villta laxins. Til þess að slíkt gerist þurfa sleppingar að vera stöðugar í miklu magni yfir langan tíma. Hér hafa menn eins og Hindar 2006 og Castelino 2018 sýnt fram á að lítil innblöndun þ.e. milli 10% til 15% hafi ekki áhrif á erfða mengi stofna Norður Atlantshafslaxins þrátt fyrir stöðugt innflæði í 13 kynslóðir, en það eru rúmlega 40 ár. Íslendingar hafa ræktað upp árnar sínar í áratugi eða alveg frá 1960. Milljónum seiða hefur verið sleppt út í náttúruna á hverju ári síðan með það að markmiði að auka veiði í ánum. Á tímum hafbeitarinnar var rúmlega 7 milljónum seiða sleppt árlega. Eftir að hafbeitin lagðist af er það milli 2 til 3,5 milljónir seiða sem er sleppt út í náttúruna árlega.

Nútíma laxakví samkvæmt ströngustu stöðlum er hluti af þeim hátæknibúnaði sem notaður er í sjókvíeldi þar sem það er stundað við strendur landsins. Mikil þróun hefur átt sér stað og þessum búnaði eða öllu heldur mannvirkjum á allra síðustu árum.

Til samanburðar má nefna að árið 2006 sluppu 921.000 eldislaxar úr kvíum í Noregi. Hvorki fyrr eða síðar hafa svo margir laxar sloppið úr kvíum í sögu Noregs á einu ári. Þetta er um það bil 1/3 þess sem Íslendingar sleppa út í náttúruna árlega í nafni fiskiræktar. Þessi fjöldi strokulaxa var litinn alvarlegum augum í Noregi og voru gerðar kröfur um nýja staðla og kröfur til búnaðar hertar til muna í kjölfarið. Þegar litið er til baka á sögu fiskiræktar hérlendis má draga þá ályktun að margt bendi til að þeir Hindar, Castellani og aðrir sem hafa haldið fram að erfðablöndun hjá Norður Atlandshafslaxinum gerist ekki nema við stöðugt flæði, í miklu magni, yfir langan tíma hafi rétt fyrir sér. Ef ekki þá væri ástand Norður Atlandshafslaxins hérlendis grafalvarlegt.

Hver er þín fræðilega skoðun á þessum fullyrðingum og áhrifum eldisins t.d. á Breiðdalsá á Austfjörðum og öðrum ám þar sem stofninn byggist á hafbeit en ekki náttúrulegum laxastofnum?

Uppræktaðar ár eins og Breiðdalsá hafa ekki náttúrulegan laxastofna. Þetta eru hins vegar heimkynni bleikju og urriða. Ekki er að sjá að þessir laxfiskar skipti miklu máli í umræðunni. Hver afleiðingin af seiðasleppingum er fyrir bleikjuna og urriðann er mér hins vegar ekki kunnugt um.  Öll veiði og viðhald laxa í upp ræktuðum ám byggist á seiðasleppingum. Sagnfræðilegar heimildir sýna að laxar sem veiðst hafa í Breiðdalsá eru villuráfandi laxar. Ein af fyrstu heimildum sem finnst um Breiðdalsá er ferðabók Olafs Olaviusar frá árunum 1775 – 1777 en þar segir: „Af frásögn prestsins í Breiðdal (Gísla Sigurðssonar) má ráða það, að lax gengur stundum í Breiðdalsá, því að í tíð föður hans hafði einu sinni fengist lax í silunganet í Þverá. Einnig má nefna bréf Bjarna Sæmundssonar Cand. Mag. til landshöfðingja um fiskirannsóknir. Þar fjallar þessi virti vísindamaður meðal annars um vatnasvæði á Austurlandi. Í kafla 52 sem ber yfirskriftina „Lax og silungsveiðar – Veiðivötn“ segir m.a. „Í ána [Breiðdalsá] gengur þó allmikið af silung, mest bleikja. Sú á á Austfjörðum, er best væri fallin til fyrir lax, er Breiðdalsá, en sjaldan eða aldrei verður vart við lax í henni.“ Einnig segir í úrskurði um arðskrá fyrir Veiðifélag Breiðdælinga að við Fagradal hafi veiðst allt frá 2 – 180 silungar ár hvert frá 1942-1961 og á sama tímabili hafi veiðst þar að meðaltali fimm laxar á ári. Þær tölur voru þó dregnar í efa í sama úrskurði þar sem engin gögn lágu fyrir um veiðarnar.

Mikilvægt er að hafa í huga að í Breiðdals á hefur verið sleppt tugum þúsunda laxa frá 1967 með mikilli aukningu árið 1997. Frá árinu 2000 til 2015 var 1.6 milljónum seiða sleppt í Breiðdalsána en á þessu sama tímabili veiddust aðeins 9.988 laxar. Í áhættumati sem Hafró gerði er Breiðdalsáin réttilega talin upp með eldisám eins og Rangánum, en nokkrum blaðsíðum seinna er Breiðdalsáin komin í hóp áa sem eru í sérlegri hættu.

Þegar Hafró skilgreinir ár sem eiga að vera í hættu er algerlega horft fram hjá áhrifum stöðugrar innblöndunar erfða mengi eldisseiða sem mótvægi við hugsanlegar sleppingu úr kvíum fiskeldisfyrirtækja, eða áhrif stöðugrar innblöndunar á hugsanlega upphafs stofna. Áhættumatið á að lýsa afleiðingum stöðugrar og langvarandi  innblöndunar eldislax í vistkerfi, en höfundar horfa svo meðvitað fram hjá innblöndun sleppiseiða. Að sleppa einum þætti út úr jöfnunni til að fá fyrir fram ákveðna niður stöðu eru ekki merkileg vísindi.

Hafró vitnar til einnar skýrslu þegar talað er um skyldleika laxa á Austfjörðum. Skýrsla þessi birtist á heimasíðu Hafró í Ágúst síðast liðnum. Skýrslan einkennist af afar slæmri aðferðafræði og túlkun niðurstaða er sýnilega fyrir fram ákveðin. Laxar fengu MATÍS  til að  fjalla um þessa skýrslu og fær hún þar verulega gagnrýni.  MATÍS bendir á „að talað er um laxastofn þegar átt er við laxa í austfirsku ánum, þó ekki hafi verið  sýnt fram á að um sjálfbæra náttúrulega stofna sé að ræða“.  Einnig koma athugasemdir við gagnavinnslu Hafró þar sem tekið er fram að taka þarf tillit til systkinahópa við  gagnavinnslu. „Mikilvægt er að taka tillit til þessa og eyða systkynahópum (skilja eftir einn eða tvo einstaklinga) þar sem fjöldi systkina í sýni getur gefið ranga mynd af erfðasamsetningu og þannig brenglað niðurstöður“.

Í gagnrýni MATÍS kemur einnig fram að það þarf að „meta hvort þær erfðafjarlægðir sem notaðar eru til byggingar á skyldleikatré (erfðafjarlægðin DA) og við fjölvíddargreininguna (Jost´s D) séu tölfræðilega marktækt ólíkar á milli áa. Oft er upplýsandi að nota og birta erfðafjarlægðina FST (eða GST sem er oftast notuð fyrir tafsraðir) milli áa og tölfræðilega marktækni þessara erfðafjarlægða milli áa. Gott er að reikna bæði Jost´s D, sem mælir erfðamun milli hópa og GST, sem mælir dreifni í tíðni erfðasamsæta, þar sem þessar reikniaðferðir gefa ólíkar upplýsingar um þá þætti sem hafa áhrif á stofngerð“.

Gríðarlegar seiðasleppingar hafa átt sér stað í Breiðdalsá allt frá árinu 1967 og af miklum krafti síðan 1997. Um þetta segir í skýrslu MATÍS „í skýrslunni er ekki lagt mat á eða rætt um hugsanleg áhrif þessara sleppinga á erfðasamsetningu laxa í Breiðdalsá. Þetta er mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess að í skýrslunni er rætt um að lax í þessari á geti verið sérstakur stofn og hugsanlega mikilvægur fyrir líffræðilegan fjölbreytileika. Þegar seiðasleppingar hafa átt sér stað, er mikilvægt að vita um uppruna og fjölda  laxa sem notaðir voru til undaneldisins til að meta hugsanlega erfðablöndun við villtan fisk. Ekki er ólíklegt að einhverjir af þessum fiskum hafi gengið í nálægar ár og skýri þar með tengsl laxa í Breiðdalsá við laxa í nálægum ám. Þá mætti einnig í þessu samhengi leggja mat á og ræða hversu mikil áhrif þessar seiðasleppingar hafa haft á líffræðilegan fjölbreytileika urriða og bleikju í sömu ám“.

Það er sérkennilegt að í umræðu stjórnmálamanna um að nota bestu vísindi er horft fram hjá Hólaskóla. Þar finnast hámenntaðir sérfræðingar sem hafa mesta þekkingu allra opinberra stofnana á fiskeldi. Mikil fengur væri fyrir umræðuna og eðlilega skoðunar myndun að láta þær raddir heyrast.

Telur þú tilefni til að endurskoða lokun 80% strandlengjunnar miðað við þær forsendur sem nú eru til staðar?

Ég taldi og tel enn lokun á 80% strandlengjunnar tilefni til að sætta ólík sjónarmiða. Með þeirri lokun var verið að gæta ítrustu varúðarsjónarmiða. Ég tel að það sé sú leið sem er vænlegust til að skapa sátt um atvinnugreinina til framtíðar en ef svo á að vera er mikilvægt að stjórnvöld fari hófsamar leiðir í takmörkun á framleiðsluheimildum innan þeirra fjarðar þar sem laxeldi er leyfilegt. Áhættumat Haf og Vatns er ekki hófsöm stýring að hálfu stjórnvalda og einungis til þess fallinn að skapa óeiningu, málaferli og áframhaldandi óvissu um atvinnugreinina. Áhættumatið er ekki viðurkennt vísindalegt gagn og óeðlilegt að horft sé til þess við uppbyggingu nýrrar atvinnugreinar. Burðarþolsmat fjarðanna er það sem stjórnvöld eiga að hafa til hliðsjónar því sú leið skapar forsendur fyrir arðsömum rekstri í laxeldi á sama tíma og verið er að gæta fyllstu varúðar.

Getur sjókvíeldi skaðað umhverfið og hvernig er hægt að bera það litla eldi sem hér á sér stað við eldið í Noregi?  Hver er sannleikurinn um norska sjókvíeldið? 

Sjókvíaeldið í Noregi gengur vel og Norðmenn orðnir heimsins stærstu framleiðendur af lax á 37 árum (1980: 8.000 tonn og 2017: 1.300.000 tonn). Hraður vöxtur í fiskeldi Norðmanna hefur skapað fjölda áskorana, sem flestar hafa verið leystar. Stærsta vandamálið í dag er laxalús og þá sérstaklega í suður og miðhluta Noregs þar sem sjávarhiti er hærri. Norðmenn hafa unnið markvist að lausn þessa vanda og er ein nýjungin bóluefni geng laxa lúsinni. Þetta verkefni er komið nokkuð vel á leið og binda menn vonir við að bóluefnið komi á markað innan nokkurra ára. Laxeldið er sú atvinnugrein sem hefur kveikt flest ljós í strjábýlum byggðum meðfram strönd Noregs. Dagens Næringsliv gerði könnun á lífskjörum í sveitarfélögum og niðurstaðan var að viðurværi sveitarfélag með fiskeldisfyrirtæki var að öllu jafna betri en í sveitarffélögum af sömu stærð án fiskeldis.

Stefna Norskra stjórnvalda er að fimmfalda framleiðslu eldisfisks. Þetta er nauðsynlegt skref til að tryggja aukna framleiðslu af próteinum fyrir komandi kynslóðir sem mæta þeirri áskorun að mankynið muni verða 9,6 milljarðar árið 2050. Við ásamt öðrum þjóðum sem eigum aðgengi að sjó höfum skyldað okkur gagnvart Sameinuðu þjóðunum að stunda fiskeldi til þess að tryggja næga framleiðslu á próteinum fyrir komandi kynslóðir. Að horfa fram hjá þessari skyldu er algerlega ábyrgðarlaust.

Er Ísland síðasta vígi Atlandshafslaxins og er hægt að færa fræðileg rök fyrir slíkri fullyrðingu?

Það finnast engin rök fyrir þeirri fullyrðingu. Til að mynda stendur Norður Atlandshafslaxinn í Noregi sérstaklega vel en það stangast á við þá staðhæfingu að fiskeldi hafi neikvæð áhrif á villta laxa stofna og að hérlendis sé síðasta vígi Norður Atlandshafslaxins. Eftir upphaf iðnbyltingarinnar hafa endurheimtur villtra laxa minnkað. Þessi tilhneiging var sjáanleg löngu fyrir tíma laxeldis.  Að kenna fiskeldi um minkandi endurheimtur er eins og að leita að lyklunum undir götuljósinu, þar sem maður sér betur. Það er sannarlega fjöldi þátta sem þarna liggja að baki, en að búa til einhverja einfalda lausn lýsir mikilli vanþekkingu og afar takmörkuðu innsæi á lífsferli laxins og þeim  breytum sem um ræðir. Það er hópur hagsmuna aðila sem sigla undir fölsku flaggi náttúruverndarsamtaka sem halda því fram í áróðurskyni að ástandið í Noregi sé uggvænlegt og telja þá upp mengun við fiskeldisstöðvar, erfðablöndun, sjúkdóma og finna fiskeldinu allt til foráttu. Þessar fullyrðingar eru ekki á rökum reistar enda er fiskeldi sú umhverfisvænasta matvæla framleiðsla sem völ er á og hafa stærstu eldisfyrirtækin í heiminum hlotið alþjóðleg verðlaun fyrir sína umhverfisvænu framleiðslu. Það er einnig mikill misskilningur að halda því fram að ekki fari saman fiskeldi og laxveiðar. Hvergi í heiminum finnast dæmi þess að fiskeldi hafi rutt í burtu laxveiðum. Besta dæmið um þetta er eins og ég nefndi Noregur, en þar er ástand villta laxins hvergi betra þrátt fyrir heimsins stærsta laxeldi. Þessar atvinnugreinar lifa þar hlið við hlið þjóðinni allri til heilla.

Hvað getur íslenska laxeldið gert fyrir lífsgæði þjóðarinnar til framtíðar? Hvað þarf að breytast og hvernig getum við að nýtt þau tækifæri sem eru til staðar?  Hvað stendur í veginum og hvers vegna? 

Það fyrsta sem mér dettur í hug er að fiskeldi gefur samfélögum sem eiga í varnarbaráttu frábært tækifæri til að byggja upp samfélagið. Um þetta eru mörg dæmi annarstaðar, til að mynda í Noregi, Færeyjum, Skotlandi og Írlandi. Laxeldi er þekkingariðnaður sem kallar á aukið menntunar stig og skapar meiri breytileika í samfélaginu. Það skapast fjöldi beinna starfa og afleidd störf eru einnig fjölmörg. Fiskeldi skapar gríðarlegar gjaldeyristekjur fyrir alla íslensku þjóðina og stór hluti af veltu fiskeldisfyrirtækjanna verður eftir í heimabyggð. Það má heldur ekki gleyma hinni aðkallandi skyldu að tryggja komandi kynslóðum aðgengi að próteini áður en fólksfjöldinn í heiminnum fer yfir 9,7 milljarða.

 UN hefur hvatt þjóðir heimsins til að nýta auðlindir sýnar til matvælaframleiðslu og á sama tíma skilgreint hafið sem akur framtíðarinnar.  Hversu margar máltíðir gætum við framleitt árlega í þeim tilgangi að axla ábyrgð okkar gagnvart markmiði UN um að eyða hungursneyð í heiminum næsta áratuginn?

Ef Ísland framleiddi 130.000 tonn mundi það gera 520.000.000 máltíðir á ári. Þetta er verulegt magn og mun vera mikilvægur þáttur í að auka aðgengi próteina fyrir komandi kynslóðir.