Ný skýrsla um kolefnisspor íslensks sjókvíeldis

Landssamband fiskeldisstöðva óskaði eftir því við Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) að reikna út kolefnisspor sjókvíeldis á Íslandi og benda á raunhæfar leiðir til kolefnisjöfnunar. Jafnframt var þróað reiknilíkan á Excel-formi sem gerir einstökum laxeldisfyrirtækjum kleift að reikna kolefnisspor framleiðslu sinnar, þ.e.a.s. magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar við framleiðslu á hverju kílói af laxi til manneldis. Inn í þessa reikninga var tekin framleiðsla og flutningur fóðurs og annarra aðfanga, eldið sjálft, orkunotkun, notkun kælimiðla og meðhöndlun úrgangs, svo og pökkun og flutningur afurða frá laxeldisstöð til dreifingarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu.  Reiknilíkanið verður aðgengilegt á heimasíðu Landssambandi fiskeldisstöðva www.lf.is þar sem nálgast má meðfylgjandi skýrslu á rafrænu formi og aðrar upplýsingar umhverfisáhrif fiskeldis.

Mynd: Viktor Alexander.

Meginniðurstaða verkefnisins er að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá laxeldi í sjó á Íslandi hafi verið um 31.000 tonn CO2-ígilda árið 2017, eða sem nemur 3,21 kg CO2-ígilda á hvert kíló af tilbúinni afurð. Þessi niðurstaða er í góðu samræmi við erlenda útreikninga, sem flestir hafa gefið niðurstöðu á bilinu 2,88-4,13 kg/kg (meðaltal 3,76 kg/kg).1

Kolefnisspor sjókvíeldis er samkvæmt þessu svipað og veiðar á villtum fiski og lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis.  Langstærsti hlutinn af kolefnisspori laxeldis á Íslandi (um 93%) liggur í framleiðslu og flutningum á fóðri. Um 3% stafa af framleiðslu og flutningi umbúða og um 2% af flutningi afurða til dreifingarstöðvar. Aðrir þætti hafa minna vægi. Af þessu er ljóst að áhrif greinarinnar á loftslagið liggja fyrst og fremst í starfsemi sem fram fer utan laxeldisstöðvanna sjálfra.

Hægt væri að kolefnisjafna alla losun gróðurhúsalofttegunda frá sjókvíeldi á Íslandi með landbótaaðgerðum, þ.e.a.s. landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Sem dæmi má nefna að til að kolefnisjafna alla losun greinarinnar eins og hún var árið 2017 þyrfti að endurheimta um 1.590 ha af votlendi. Sú ráðstöfun væri í raun varanleg, þar sem hún myndi draga úr losun samsvarandi magns gróðurhúsalofttegunda frá votlendi árlega í áratugi eða aldir. Ekkert er því til fyrirstöðu að byggðatengja landbótaaðgerðir af þessu tagi, þannig að fjármagn sem lagt er til verkefnanna nýtist í heimabyggð.

Skýrslan er unnin af Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) fyrir Landssamband fiskeldisstöðva. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur og Birna Sigrún Hallsdóttir umhverfisverkfræðingur höfðu umsjón með gerð skýrslunnar hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.  Hér má niðurhala skýrslunni í heild sinni. Kolefnisspor íslensks laxeldis.