Náttúruvernd þegar mér hentar

Sigurður Pétursson skrifar.

Það sem mér þykir erfitt í þeirri baráttu sem við sem stundum fiskeldi í sjó höfum átt við eigendur eða veiðiréttahafa laxveiðiáa er að hinir síðarnefndu hafa verið að stofna hin ýmsu samtök s.s. Laxinn Lifir, Icelandic Wild Live Fund o.fl. sem skilgreina sig sem náttúrverndasamtök. Það eru svo þessi andlitslausu samtök sem kæra öll leyfi, skrifa greinar eða áróður á veraldarvefnum, búa til heimildamyndir o.s.frv.

Það er óumdeilt að fiskeldi í sjó er ein umhverfisvænasta matvælaframleiðsla í heimi og þar er einnig verið að nýta vannýtt hafsvæði – sjá ýtarefni með tilvísun í fræðigreinar: http://www.arcticfish.is/general-info/

Eins og fróður maður sagði við mig um daginn það er þunn lína milli náttúruverndar og nytja, það á vissulega við um margt m.a. fiskeldi en líka um fiskveiðar og þar með talið laxveiðar.

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við Söndru M. Granquist, sérfræðing hjá Hafrannsóknastofnun um ástand og veiði landsela við Íslands. Síðan 1980 hefur fækkað um 77% í landselsstofninum og rakið er að yfir 80% af veiðinni “eigi sér stað nálægt ósum laxveiðiáa í þeim tilgangi að minnka áhrif sela á laxfiska”! Nú er svo komið að á nýútgefnum válista íslenskra spendýra eru tvær tegundir í bráðri hættu, landselur og sléttbakur. Veiðiréttahöfum er að takast að útrýma landselnum og næsta spendýr á útrýmingarlista þeirra eru líklega fiskeldismenn.

Skyldulesning dagsins er síðan grein snillingsins Eiríkur Örn Norðdahl í www.bb.is sem á sinn einstaka kaldhæðnislega hátt fjallar í raun um þessa spurning er hægt að vera náttúruverndasinni þegar mér hentar?

Höfundur er líffræðingur og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.