Störfum í fiskeldi mun fjölga á Austfjörðum

Í Fréttablaðinu í morgun birtist frétt um að fóðrun í kvíum Fiskeldis Austfjarða hf. verði stýrt frá Noregi í byrjun næsta árs. Á fréttinni má skilja að störfum muni fækka en það er fjarri lagi.
 
Hjá Fiskeldi Austfjarða hf. starfa nú um 70 manns auk fjölda verktaka sem þjónusta fiskeldið. Enn er fyrirtækið í stöðugum vexti og starfsmönnum á eftir að fjölga þrátt fyrir þá hröðu tækniþróun sem á sér stað í greininni.
 
„Hér hefur verið fjárfest í hátækni fóðurbúnaði sem kom til landsins í sumar.  Með þessari nýju tækni náum við hámarks nýtingu fóðurs, betri vexti fisksins með lágmarks áhrifum á umhverfið.  Það eru 1-2 starfsmenn í þessu auk annarra verkefna og þeir verða áfram þó fóðruninni sem slíkri verði stýrt frá Noregi,“ segir Guðmundur Gíslason forstjóri Fiskeldis Austfjarða hf.  
„Við lítum á þetta sem hluta af þjálfunarferli starfsmanna og mikilvægt tækifæri að nýta reynslu og þekkingu sem norðmenn búa yfir til að hámarka nýtingu fóðurs með þeirri tækni sem nú er til staðar.  Við stefnum að því að stækka töluvert á næstu árum og þá verður til grundvöllur til að stýra þessu héðan. Starfsmenn okkar hafa þá farið í gegnum þjálfunarferli og öðlast meiri þekkingu á þeirri tækni sem fóðrunin er,“ segir Guðmundur Gíslason forstjóri Fiskeldis Austfjarða hf.  

 

„Það hafa skapast mörg störf hér á Austfjörðum á fáum árum og þeim á enn eftir að fjölga mikið í framtíðinni á sama tíma og gríðarlega hröð þróun sem á sér stað á tækni og búnaði fiskeldisins,“ segir Guðmundur bjartsýnn á framtíðina.