Náttúruhamfarir af mannavöldum

Í Morgunblaðinu í morgun birtist eftirfarandi frétt þar sem Helgi Bjarnason blaðamaður ræðir áhrif úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála við Iðu Marsibil Jónsdóttur forseta bæjarstjórnar Vesturbyggðar og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Von um framtíð byggðarlaganna myndi slokkna

Ráðherra segir allra leiða leitað til þess að fiskeldisúrskurður valdi ekki tjóni

„Það má líkja þessu við náttúruhamfarir af mannavöldum. Fiskeldið hefur orðið okkar lífæð að undanförnu,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, þegar leitað er viðbragða hennar við úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem rekstrarleyfi Matvælastofnunar til handa Arnarlaxi og Arctic Fish Farm í Patreksfirði og Tálknafirði voru felld úr gildi.

Iða getur þess að í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi séu rúmlega 100 bein störf við fiskeldi auk þess sem um 50 menn vinni hjá verktökum sem starfa við fiskeldið. Í sveitarfélögunum tveimur eru um 1.270 íbúar og það myndi því hafa afleiðingar fyrir byggðarlagið ef fiskeldið yrði fyrir þungu höggi og umtalsverð fækkun yrði á starfsfólki. „Þetta myndi hafa gríðarlegar afleiðingar hér. Það sorglegasta er að sú von sem hefur kviknað um framtíð byggðarlaganna og orðið til þess að fólk hefur verið að fjárfesta hér í íbúðarhúsnæði myndi slokkna,“ segir Iða Marsibil. „Getum við þá farið fram á að ríkið kaupi eignir okkar hér og hjálpi fólki að komast í burtu?“ 

Hún bætir því við að búast megi við því að sami formgalli sé á öðrum fiskeldisleyfum sem gefin hafa verið út og því muni greinin falla eins og spilaborg, ef ekki verði gripið til ráðstafana. Tekur hún fram að svo virðist sem skilningur sé á því í stjórnkerfinu að svona geti málið ekki gengið fram en hún viti ekki í hverju hugsanlegar ráðstafanir felist.

„Það er mikilvægt að leita allra leiða til þess að allir sem þetta mál snertir verði ekki fyrir tjóni vegna þeirra væntinga sem eðlilega hafa verið byggðar á afgreiðslu þriggja ríkisstofnana. Ég bind vonir við að það takist,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þegar hann er spurður um viðbrögð stjórnvalda. Hann bendir á að vinna Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar hafi verið sett á núllpunkt með úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Fyrirtækin tvö sem hlut eigi að máli hafi haft réttmætar væntingar um uppbyggingu á grundvelli afgreiðslu ríkisstofnananna þriggja.

Íbúarnir hræddir og reiðir „Það ríkir ótti og reiði,“ segir Iða Marisbil um viðhorf íbúanna og skýrir það með því að þessi leyfisúrskurður komi í kjölfar tillögu til samgönguáætlunar sem Vestfirðingar eru ekki ánægðir með. „Hér er staðan sú að búið er að sameina sjúkrahúsið á Patreksfirði og Ísafirði en það gleymist að gera ráð fyrir því að fólk þurfi að komast á milli staða til að sækja þjónustuna ef hún er þá ekki efld á öllum stöðum.

Ekki er gert ráð fyrir nauðsynlegum vegabótum í kjölfar Dýrafjarðarganga og það sló okkur út af laginu. Það er í þessu eins og öðru að það er eins og það gleymist að huga að því að hér býr fólk og fjölskyldur sem búið er að kaupa húsnæði og koma sér fyrir,“ segir Iða Marsibil. Flutti aftur heim Sjálf er hún ein af þeim brottfluttu Vestfirðingum sem sneru heim þegar atvinnutækifæri gáfust í uppbyggingu fiskeldis.

Hún er fædd og alin upp á Bíldudal en flutti suður til að mennta sig var starfandi þar þegar hún fékk boð um að flytja aftur vestur á árinu 2013 og taka að sér starf sem skrifstofustjóri Arnarlax. Nú er hún einnig forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar. „Ég er bæði íbúi hér og starfsmaður fyrirtækisins og hef þessar sterku rætur og umhyggju fyrir mínum æskuslóðum,“ segir hún og segir það skyldu sína sem forseti bæjarstjórnar að berjast fyrir hagsmunum íbúanna.