Úrgangur frá laxeldi notaður til orkuvinnslu í Færeyjum

Bakkafrost, stærsta laxeldisfyrirtæki Færeyjan, hefur tilkynnt að það hyggst byggja nýja lífræna gasvinnslustöð til að vinna gas úr úrgangi frá eldislaxi og frá kúabúum á eyjunum. Stöðin verður byggð í samvinnu við önnur laxeldisfyrirtæki í Færeyjum og kúabændur.

Í frétt um málið á hinni opinberu vefsíðu Færeyja, faroeislands.fo kemur fram að fyrrgreind gasvinnsla sé hluti af mun stærra verkefni sem Bakkafrost greindi frá síðla vetrar. Meðal þess sem gera á er að minnka vatnsnotkun í eldinu með notkun rigningarvatns, draga úr kolefnislosun og koma á fót sérstökum sjóði til að stuðla að heilbrigðum lífsháttum.

Á vefsíðunni er vitnað í Regin Jacobsen forstjóra Bakkafrost en hann segir að forráðamenn fyrirtækisins trúi því að með því að fjárfesta í heilbrigðari atvinnuháttum, laxinum sem þeir framleiða, umhverfinu og byggðum sem fyrirtækið starfar í…“munum við skapa verðmæti til langs tíma fyrir samfélagið“, segir Jacobsen.