Sjókvíaeldi á opnu hafi er staðreynd

„Óvenjulegur hlutur kom upp að strönd Noregs í september s.l. Hluturinn var svipaður að þyngd og Eiffel turninn og umfang hans var meira en Péturskirkjunnar í Róm. Rammi þessa hlutar var 68 metrar frá toppi til botns og yfir 100 metrar í þvermál. Hluturinn er staðsettur 5 kílómetra á hafi úti, lítur út eins og tívolíhjól á hliðinni með hvítum stjórnturni á toppinum. Þegar hluturinn var fluttur sjóleiðina frá skipasmíðastöð í Kína, þar sem hann var smíðaður, töldu innfæddir við strendur Suður Afríku að um fljúgandi furðuhlut væri að ræða. Nú er beðið eftir því sem hluturinn á að hýsa, 1,5 milljónum laxaseiða.“

Þannig hefst grein í tímaritinu The Economist um Ocean Farm 1, fyrsta úthafsfiskeldisbúið af sex sem norska fiskeldisfyrirtækið SalMar hefur pantað og kostaði um 300 milljónir dollara eða um 30 milljarða kr.

Stærsta fiskeldisbúið á opnu hafi

„Ocean Farm 1 er án vafa stærsta fiskeldisbúið sem til er á opnu hafi“, segir Thor Hukkelas forstöðumaður rannsókna og þróunar á fiskeldissviði norska verkfræifyrirtækisins Kongsberg Maritime. Fyrirtækið sá um að hanna skynjarakerfi Ocean Farm 1. Kerfið samanstendur af 12 bergmálsmælum í botni rammans, háskerpumyndavélum á mismunandi dýpi innan hans, súrefnismælum og fóðurstöðvum sem eru neðansjávar.

Í The Economist segir að markmiðið með Ocean Farm 1 sé að leysa tvö lykilvandamál sem fylgja strandeldi með sjókvíjum, plássleysi og mengun vegna úrgangs frá þeim, það er sjávarstraumar munu sjá um að úrgangurinn sópast í burtu jafnóðum. Einnig mun vandamál vegna laxalúsar hverfa í þessu fiskeldisbúi þar sem lýsnar þrífast eingöngu á grunnsævi.

Sem stendur er Kongsberg að safna gögnum frá öllum skynurum í Ocean Farm 1 til að byggja sjálfmenntandi kerfi sem kallast SimSalma. Kerfið lærir á hegðun laxana til að hámarka fóðurnýtinguna hjá þeim. Sem stendur eru menn á búinu sem ákveða hvenær fóðra eigi laxinn en Kongsberg áætlar að á næsta ári verði þetta kerfi algerlega sjálfvirkt.

„Árangur og útvíkkun á þessu verkefni myndi verða stórt skerf í áttina að því að viðhalda fiskistofnum heimsins,“ segir í The Economist.

Og meira í vændum

Nýjustu fréttir frá Noregi herma að SalMar hyggi á smíði mun stærra fiskeldisbús en Ocean Farm 1, raunar allt að tvöfalt stærra. Að sögn norskra fjölmiðla yrði kostnaðurinn við það um 1,5 milljarður nkr. eða nær 20 milljarðar kr. Fram kemur að þetta nýja bú eigi að geta staðist úthafsöldur sem eru allt að 15 metrar á hæð. SalMar mun bráðlega sækja um leyfi fyrir hinu nýja búi hjá norskum stjórnvöldum.