Leitin að landnámslaxinum

Grein sem Halldór Jónsson, fjármálastjóri á Akranesi skrifar í Morgunblaðið, 25. maí.

Flestum, sem komnir eru til vits og ára, og alist hafa upp við Ísafjarðardjúp þykir firn mikil þær fréttir að laxar þeir er ganga í ár í Ísafjarðardjúpi séu nú svo verðmætir að velferð þeirra og erfðamengi ráði nú hvort mannlíf við Djúp fái að þróast í takt við eðlilegt sambýli manns og náttúru líkt og verið hefur þar frá því að hinir frægu elstu menn muna. Að um sé að ræða landnámsstofn voru slík tíðindi að kunnuga setti hljóða. Slíkur arfhreinleiki er með nokkrum ólíkindum. Umræðuhefðin er orðin slík að smáatriðin eru orðin aðalatriði og rangfærslurnar að sannleika. Rétt er því að rekja nokkuð sögu laxveiða og „hreinleika“ stofna.

Lýsing Ferðafélagsins
Í gegnum aldirnar hafabæði hámenntaðir vísindamenn og aðrir farið um landið og skrásett landkosti. Ekki úr vegi að rekja skrif sumra þeirra í stuttu máli.
Jóhann Hjaltason skólastjóri skrifaði lýsingu á Norður-Ísafjarðarsýslu í árbók Ferðafélags Íslands árið 1949. Um Laugardalsá skrifar hann: „Áin er því lygn með miklum botngróðri og veiðisælt silungsvatn, en lax hefur þar eigi verið svo menn viti, fremur en í öðrum ám Vestfjarða, fram til síðustu ára, að laxaseiði hafa verið látin í ána til uppvaxtar. “ Svo mörg voru þau orð. Engum orðum fer hann frekar um laxveiði í Ísafjarðardjúpi.

Frumkvöðullinn Bjarni Sæmundsson
Í bók Bjarna Sæmundssonar fiskifræðings Fiskarnir, sem kom út árið 1926 rekur hann nokkuð nákvæmlega hvar lax veiðist á Íslandi. Er kemur að Vestfjörðum í hans upptalningu stendur: „en á öllu svæðinu þaðan kringum Vestfjarðakjálkann, að Hrútafirði, verður varla vart við lax, eða menn greina hann þar tæplega frá sjóurriða.“

Varla ljúga Sóknarlýsingarnar
Í sóknarlýsingum Vestfjarða sem ritaðar voru á árunum 1839-1854 að tillögu Jónasar skálds Hallgrímssonar er nokkuð nákvæm lýsing á hlunnindum jarða í hverri sókn í Ísafjarðardjúpi. Er þar nokkrum sinnum nefnd silungsveiði en aldrei er laxveiði nefnd á nafn.

Lýsing Íslands
Í undirstöðuritinu Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen sem gefin var út árið 1881 skrifar hann: „Laxinn (Salmo salar) gengur upp í mjög margar ár bæði sunnan lands og norðan, en miklir hlutar landsins eru þó laxlausir, t.d. Vestfirðir allir milli Gilsfjarðar og Bitru, suðurströndin öll fyrir austan Þjórsá og Austfirðir norður að Héraðsflóa.“

Félagarnir Eggert og Bjarni
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fóru rannsóknarferðir um Ísland á árunum 1752-1757 og skildu eftir sig handrit að ferðabók er síðar út. Í henni kemur fram að hvergi veiðist lax í ám á Vestfjörðum en í nokkrum veiðist það sem þá var kallaður laxbróðir, öðru nafni sjóbirtingur. Engin þeirra áa er í Ísafjarðardjúpi. Að auki segja þeir silung veiðast víða.

Jarðabókin góða
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Ísafjarðar- og Strandasýslu, sem rituð var 1710 er nákvæm lýsing á mannlífi og staðháttum, svo mörgum þótti nóg um. Þar stendur um Laugadalsá: „Silúngsveiði lítil í Laugadalsá, þykir nú fara til rýrðar og valla með hlunnindum teljandi.“ Eðlilega er ekki minnst á laxveiði í ánni enda áttu eftir að líða tvær og hálf öld þar til hún var gerð laxgeng. Um Langadalsá segir: „Silúngsveiði gagnvæn hefur verið í Lángadalsá, en hefur nú brugðist í nokkur ár að mestu aldeilis.“ Lax ekki nefndur á nafn hér frekar en annars staðar í umfjöllun þeirra um Ísafjarðarsýslu.
Það er á grundvelli þessarar sögu sem vísindaleg ákvörðun var tekin árið 2004 að leyfa laxeldi á Vestfjörðum þegar stærstum hluta strandlengju landsins var lokað.

Frá Ísafjarðardjúpi: „Af þessum örfáum dæmum sést að laxveiðar við Ísafjarðardjúp hafa ekki verið stundaðar lengi í sögulegu samhengi. Þvert á móti. Þær hófust ekki að neinu marki fyrr en örfáir menn fóru að fikta við laxarækt rétt fyrir miðja síðustu öld. „

Laxeldi í Ísafjarðardjúpi á „gömlum merg“
Af þessum örfáum dæmum sést að laxveiðar við Ísafjarðardjúp hafa ekki verið stundaðar lengi í sögulegu samhengi. Þvert á móti. Þær hófust ekki að neinu marki fyrr en örfáir menn fóru að fikta við laxarækt rétt fyrir miðja síðustu öld. Í Langadalsá, sem er stærst þeirra áa í Djúpinu sem eru laxgengar frá náttúrunnar hendi, veiddust í fyrsta skipti 100 laxar eftir 1960. Veiði úr henni hefur ávallt verið mjög sveiflukennd og frá 1950 til 2013 var meðalveiðin aðeins 174 laxar.
Árið 1936 hófust tilraunir til þess að sprengja fiskistiga í Laugardalsá. Þær báru lítinn sem engan árangur fyrr en árið 1969 er steyptur var laxastigi í ána. Eftir það fóru laxveiðar í Laugardalsá vaxandi. Um leið og ræktun í ám í Ísafjarðardjúpi skilaði sér skiluðu árnar sér í hlunnindamat. Má þar nefna Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi eftir Lárus Ágúst Gíslason sem gefin var út árið 1982 þó skráning þar sé nokkuð ónákvæm.

Sleppingar og stórfelld hafbeit
Eins og áður sagði voru það mannanna verk, m.a. með sleppingum utanaðkomandi seiða, sem urðu þess valdandi að lax tók að veiðast í áðurnefndum ám svo og öðrum á þessum slóðum. Um árabil var miklum fjölda seiða frá hinum ýmsu stöðum á landinu sleppt í árnar. Voru gerðar talsverðar tilraunir við þessar sleppingar og fóru fram talsverðar rannsóknir á því hvar best væri að sleppa fiskinum. Var honum meðal annars sleppt utarlega í Ísafjarðardjúpi en niðurstöður rannsókna voru á þann veg að sá fiskur skilaði sér síst í árnar aftur. Það er athyglisverð staðreynd með hliðsjón af umræðum að undanförnu. Fjöldi þessara fiska er sleppt hefur verið telst í hundruðum þúsunda og frá ýmsum stöðum á landinu og þar af leiðandi með hinum ýmsu erfðamengjum.
Þrátt fyrir þessar ólíku tegundir er ekki að sjá, ef marka má vísindamenn, að það hafi haft nein áhrif á erfðamengi „landnámslaxsins“ í Djúpinu.
Í umræðum undanfarið hefur lítt eða ekki verið getið um umtalsvert seiðaeldi og hafbeit sem stunduð var frá áttunda til tíunda áratugs síðustu aldar í Ísafjarðardjúpi. Seiði í eldi voru af ýmsum stöðum á landinu og voru seld víða um land og einnig til Noregs um tíma. Þá hófst einnig umtalsverð hafbeit eins og áður sagði. Endurheimtur til stöðvanna voru minni en vonast hafði verið til en laxagengd á Vestfjörðum öllum jókst mjög á þessum árum. Mátti víða veiða lax í ám þar sem hans hafði ekki orðið vart áður. Af laxveiðiám má nefna að veiði í Hvannadalsá fór í 304 fiska árið 1991. Þrátt fyrir þessa miklu laxagengd „óhreinna“ eldislaxa sjást þess engin merki í erfðamengi laxastofnsins í Ísafjarðardjúpi í dag, ef marka má vísindamenn.

Er genamengið óbreytanlegt?
Því er ekki skrýtið að leikmaður velti fyrir sér hvort hinn náttúrulegi stofn í Ísafjarðardjúpi sé svo sterkur að allur sá utanaðkomandi lax sem sannarlega hefur verið sleppt í ár þar og í hafbeit hafi engin áhrif haft. Sé svo, er þá einhver ástæða til þess að óttast að fiskeldi með ströngustu varúðarráðstöfnum sem þekkjast geti haft þar neikvæð áhrif?

Halldór Jónsson
Höfundur er fjármálastjóri búsettur á Akranesi.