Á að brjóta flugustöngina?

Björn Davíðsson, formaður atvinnu- og menningarmálanefndar Ísafjarðarbæjar skrifaði merkilega grein í blaðið Vestfirðir sem kom út í síðustu viku og hægt er að nálgast hér.

Greinin birtist í blaðinu Vestfirðir
Blaðið Vestifirðir

Mikilvægi fiskeldis sem vaxandi atvinnugreinar á Vestfjörðum er óumdeilanlegt. Þó vel hafi gengið undanfarið eru til þeir sem finna þessarri atvinnugrein flest til foráttu. Helst eru það veiðiréttarhafar og veiðifé- lög, sem hafa fjárhagslega hagsmuni af því að kynna og selja veiðileyfi í ár með villtum fiski. Veiðiréttarhafar hafa sjálfir stundað seiðaeldi og hafbeit í áratugi.

Árnar í Ísafjarðardjúpi voru t.d. ræktaðar upp með aðfengnum seiðum og 1969 var sprengdur niður foss neðarlega í Laugardalsá til að koma fyrir laxastiga. Þá hafði verið sleppt seiðum allt frá 1936 en áin ekki fiskgeng upp fyrir fossinn og því ekki sjálfbær. Sama gildir um Langadalsá sem er ekki sjálfbær og þarf að sleppa í hana miklum fjölda seiða árlega auk þess sem stunda þarf brottkast á fiski sem er 70 cm og lengri.

Hafrannsóknastofnun, sem gert hefur burðarþolsmat á Ísafjarðardjúpi með jákvæðum niðurstöðum, telur nú að árnar í Ísafjarðardjúpi séu með villtum laxastofnum sem beri að vernda og hefur því gert sérstakt áhættumat. Áhættumatið er með töluverðri óvissu og verður endurskoðað fyrir sumarsólstöður. Þá virðist sem boðuð lagasetning færi vald frá ráðherra til Hafrannsóknastofnunar sem gæti svo tekið ákvörðun um stöðvun frekara eldis, án tillits til hagsmuna Vestfirðinga sem eru gríðarmiklir.

Það var mikið gæfuspor þegar ákveðið var að undanskilja Vestfirði lagaákvæðum um lokun strandlengju Íslands fyrir laxeldi. Það var gert með vísan til þess að áhætta var innan settra marka og að helstu laxveiðiár eru langt frá eldissvæðum. Áhugi fjárfesta, bæði innlendra og erlendra er augljós og þótt sumir hafi talið erlenda fjárfestingu viðsjárverða verð- ur vart sagt að þurfi að hafa áhyggjur þar sem helsti virðisauki atvinnugreinarinnar felst í atvinnusköpun og útflutningi afurða. Sömuleiðis þarf greinin að reiða sig að mestu á þjónustu og aðföng innanlands. Undanfarið hefur mikið borið á þessum háværa en fámenna þrýstihóp veiðiréttarhafa á samfélagsmiðlum og með neikvæðum greinaskrifum.

Mikið er um alhæfingar og dómsdagsspár. Það kostulega er að veiðiréttarhafar eiga jafnvel sjálfir hagsmuna að bæta báðum megin við borðið. Má þar nefna t.d. formann Landssambands veiðifélaga, sem á og rekur eldisstöð við eina bestu laxveiðijörð landsins. Er þar ferðaþjónusta sem byggir á sölu veiðileyfa, gistingu og skyldri þjónustu. Hann hefur lengi staðið fyrir fiskeldi á bæði laxi og regnbogasilungi á bökkum Laxár í Aðaldal.

Í janúar sl. hafnaði MAST umsókn hans um stækkun eldisstöðvar þar á þeim forsendum að gera þurfi úrbætur á afrennsli þaðan í Laxá. Jafnframt var bent á að ekki væri hægt að samþykkja eldi á bæði laxi og regnbogasilungi í sömu eldisstöð. Umsóknin var send til MAST á nýrri kennitölu, en rekstur formannsins hefur gengið illa og varð fyrra félag hans gjaldþrota. Viðbrögð hans virðast felast í kröfu um að leyfisveitingar og eftirlit verði færð frá MAST til Fiskistofu. Þá sakaði hann í Kastljóssviðtali yfirdýralækni fisksjúkdóma hjá MAST um óeðlileg hagsmunatengsl við eldisfyrirtæki vegna sölu á bólusetningarefni til þeirra, en lét þess ógetið að í þroti félags hans eru skuldir við þennan sama dýralækni.

Veiðiréttarhafar (undir nafninu ,,Icelandic Wildlife Fund”) og Landssamband veiðifélaga halda úti síðum á Facebook þar sem þeir segjast ýmist umhverfisverndar- eða góðgerðarsamtök. Þaðan er linnulaust dreift með kostun ósannindum um að eldislax sé erfðabreyttur, laxastofnar í Djúpinu séu hluti af villta laxastofninum, að hætt sé að veita eldisleyfi í Noregi, mikið tap sé á eldi, að afurðaverð falli og að með- ferð á laxi í kvíum sé dýraníð.

Mest er þar klappað af þekktum unnendum ,,meiða- og sleppa” laxveiða og leið- sögumönnum. Þeim sem mótmæla bullinu er úthúðað með að þeir séu ,,eldismenn” sem ekki þarf að efast um að sé mikið skammaryrði í hópi veiðiréttarhafa (nema um framangreindan formann). Ég get svarað fyrir mig. Ég hef mikla hagsmuni, eins og aðrir Vestfirðingar, af því að fiskeldi nái a blómstra á Vestfjörðum, þar með talið í Djúpinu.

Ef unnendur villtra laxastofna hafa svona miklar áhyggjur af velferð þeirra, af hverju eru þeir þá að taka fram fyrir hendurnar á náttúrunni, dæla út eldisseiðum, stunda svo sitt dýraníð, skemmta sér við að þreyta bráðina í lengri tíma og henda henni svo út í ána aftur? Er þá ekki besta leiðin til að vernda villta laxinn að brjóta flugustöngina? Og tryggja að villti laxinn eigi sín óðul í hyljum ánna óáreittur. Þannig á líka meintur flóttalax úr kvíum minni möguleika á að ,,menga” árnar.

Björn Davíðsson, formaður atvinnu- og menningarmálanefndar Ísafjarðarbæjar