Fiskeldisblaðið

Fréttir

Aukið laxeldi er vítamínsprauta fyrir samfélagið

Byggðastofnun:

-sjókvíaeldi breytir samfelldu samdráttarskeiði í uppbyggingar- og þennsluferli með umtalsverði fjölgun íbúa, byggingu íbúðahúsnæðis og annarri uppbyggingu sem fylgir fólksfjölgun.

Aukið laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum á næstu árum mun hafa veruleg áhrif til góðs fyrir fjórðunginn. Ein birtingarmyndin er að nú um stundir fjölgar íbúum í fjórðungnum eftir að þeim fækkaði verulega á síðustu árum og áratugum.

„Stórfelld uppbygging er fyrirhuguð í sjókvíaeldi á þeim svæðum á landinu sem það er heimilt. Gangi fyrirætlanir fiskeldisfyrirtækja eftir þó ekki væri nema að hluta til munu áhrif á þær byggðir þar sem eldið nær sér á strik verða veruleg,“ segir m.a. í skýrslu sem Byggðastofnun gaf út í fyrrasumar. Í skýrslunni var horft til mögulegra áhrifa á þrjú væntanleg áhrifasvæði sjókvíaeldis, þ.e. sunnanverðra Vestfjarða, norðanverðra Vestfjarða og Austfjarða.

„Vestfirðir hafa búið við mikla fólksfækkun undanfarin ár og áratugi. Framundan eru miklar breytingar á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum, gangi áætlanir um um sjókvíaeldi eftir, og í raun má segja að svæðin fari þá úr nokkuð samfelldu samdráttarferli í uppbyggingar- og þensluferli með umtalsverðri fjölgun íbúa, byggingu íbúðarhúsnæðis og annarri uppbyggingu sem fylgir fólksfjölgun og breyttri aldurssamsetningu,“ segir í skýrslunni.

„Hvar áhrifin verða mest ræðst að miklu leyti af því hvar helstu starfsstöðvar fyrirtækjanna verða. Í þessu ferli mun reyna mikið á stjórnsýslu og innviði sveitarfélaganna á svæðinu. Stærsta áskorunin á Vestfjörðum verður að útvega nægilegt íbúðarhúsnæði handa nýjum íbúum og halda uppi þjónustustigi.“

Sunnanverðir Vestfirðir

Í skýrslunni segir um sunnanverða Vestfirði að aukið eldi, auknir þungaflutningar og ýmis þjónusta við eldið kallar á bættar samgöngur á svæðinu og til svæðisins en vegasamgöngur eru erfiðar. „Tengingin til norðurs er um Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar sem eru gamlir malarvegir sem ekki er hægt að treysta á að séu færir nema hluta úr ári. Framundan er gerð Dýrafjarðarganga og gert er ráð fyrir að þau opni haustið 2020 ef áætlanir ganga eftir,“ segir í skýrslunni.

„Eftir stendur vegakafli í Reykhólahreppi sem m.a. liggur um Hjallaháls og Ódrjúgsháls en deilur hafa staðið um vegstæði nýs vegar. Að auki eru ferjusamgöngur yfir Breiðafjörð til Stykkishólms. Hugsanlega þarf einnig að bæta hafnaraðstöðu á svæðinu og mögulega að stækka flugvöllinn á Bíldudal.“

Norðanverðir Vestfirðir

Um norðanverða Vestfirði segir að áhrifa fiskeldis gæti í takmörkuðum mæli enn sem komið er. „Áform um fiskeldi á svæðinu munu leiða til fjölgunar starfa sem ekki verður nema að litlu leiti mætt með núverandi íbúum. Það kallar á byggingu íbúðahúsnæðis fyrir megnið af nýjum íbúum svæðisins. Ísafjarðarbær er farinn að huga að fjölgun leikskólaplássa auk þess sem að byggja þarf grunnskólahúsnæði og huga að uppbyggingu annarra innviða á svæðinu m.a. skipulagsvinnu vegna íbúðarhúsnæðis,“ segir í skýrslunni.

„Líklegt er að eldi muni styrkja þjónustustarfsemi á svæðinu en einnig að það verði svæðisbundin nýsköpun tengd þjónustu og jafnvel framleiðslu í kringum eldið. Þá horfa heimamenn til þess að mögulega geti eldið styrkt fræðasamfélagið á Ísafirði og nýsköpunarfyrirtæki eins og Kerecis og Skagann-3X.“

Tekið er fram að undirbúningsvinna vegna hafnarframkvæmda er nýtast munu fiskeldi er hafin bæði á Ísafirði og í Bolungarvík. Unnið hafi verið nýtt skipulag á Suðurtanga á Ísafirði m.a. með þarfir fiskeldis í huga. Ísafjarðarbær telur nauðsynlegt að fundið verði nýtt flugvallarstæði í stað Ísafjarðarflugvallar.

Austfirðir

Í skýrslunni kemur fram að aukið fiskeldi mun einnig koma Austfjörðum til góða en ekki eins mikið og gildi um Vestfirði.

„Eins og á Vestfjörðum kallar aukið fiskeldi á fólksfjölgun á svæðinu og byggingu íbúðahúsnæðis fyrir það. Í Fjarðabyggð er umtalsverður fjöldi af tilbúnum lóðum þar sem gatnagerð er lokið. Á Djúpavogi liggur fyrir deiliskipulag og lóðir eru tilbúnar. Sömuleiðis munu sveitarfélögin á svæðinu þurfa að stækka leik- og grunnskóla og fjölga starfsfólki í grunn- og stoðþjónustu sveitarfélaganna til að mæta væntri fólksfjölgun.

Líklegt er að fiskeldið muni styðja við aðra atvinnustarfsemi tengda þjónustu við eldið og viðhald ýmis konar. Einnig eru bundnar vonir við að það geti leitt af sér nýsköpun á svæðinu.“