Ísland á tímamótum í laxeldismálum: Getum framleitt lax fyrir 137 milljarða

Fjárfestingarbankinn Beringer Finance telur framtíð laxeldis á Íslandi fremur bjarta og að hægt sé að margfalda framleiðsluna frá því sem nú er. Raunar er staðhæft að laxeldi geti skilað einum milljarði evra eða 137 milljörðum kr. í þjóðarbúið.

Í ár stefnir í að framleiðsla á eldislaxi á Íslandi verði rúmlega 10.000 tonn. Beringer telur vel hægt að auka þetta magn upp í yfir 65.000 tonn árið 2020. Möguleikar séu síðan til staðar á allt að 167.000 tonna framleiðslu í framtíðinni.

Greining Beringer sendi nýlega frá sér skýrslu um framtíð og horfur í laxeldi hérlendis nýtt yfirskriftinni: Nýir tímar, horft á tækifærin í íslensku laxeldi. Skýrslan er skrifuð af þeim Knut Erik Lövestad og Magnus Graneröd.

Veitt hafa verið framleiðsluleyfi í laxeldi fyrir allt að 40.000 tonnum á Íslandi en þetta magn er nær eingöngu bundið við Vestur og Austurland. Þar að auki hefur verið sótt um leyfi fyrir allt að 130.000 tonnum.

Laxeldi er þó ekki allt dans á rósum að mati Beringer en í skýrslunni er farið yfir helstu hindranir fyrir stórauknu laxeldi hérlendis. Þær helstu eru lágur sjávarhiti við Ísland sem dregur úr vaxtarhraðanum, núverandi geta til seiðaeldis og framleiðslukostnaður sem enn er vel yfir meðallagi miðað við aðra heimshluta.

„Samt sem áður að miðað við reynsluna af laxeldi í kaldari héruðum Noregs, nýrri tækni og fjárstuðning frá stórum norskum fjárfestum teljum við að laxeldi geti orðið að umfangsmiklum iðnaði á Íslandi,“ segja þeir Lövestad og Graneröd í skýrslu sinni. „Mögulega getur þessi framleiðsla skilað einum milljarði evra og orðið um 5% af landsframleiðslu Íslands. Þar að auki gæti Ísland tekið framúr Færeyjum sem fimmta stærsta laxeldisland heimsins.“

MF: Nú þegar öflug búgrein

Í skýrslu þeirra Lövestad og Graneröd er farið yfir íslensk efnahagsmál og sögu fiskeldis á Íslandi en sú saga hefur verið brokkgeng þar til á síðustu árum. Þeir benda hinsvegar á að þegar sé öflug framleiðsla til staðar á öðrum eldisfiski en laxi í landinu. Benda þeir í þeim efnum m.a. á bleikju- og regnbogasilungseldi. Hinsvegar tók laxeldið framúr þessu eldi hvað magn varðar á síðasta ári. Lövestad og Graneröd reikna með að frá og með þessu ári muni laxeldið verða mikilvægasta eldisgreinin á Íslandi í framtíðinni.

Þeir Lövestad og Graneröd reikna með að fyrir árslok 2020 muni allt að 10.000 manns vinna við laxeldið og tengda starfsemi hérlendis og raunar geti störfin numið allt að 14.000 manns eða tvöföld á það sem var í fyrra. Megnið af þessum nýju störfum verður til á landsbyggðinni.

MF: Hátt verð næstu 3 árin

Í skýrslunni er farið yfir stöðuna í laxeldi í heiminum en heimsframleiðslan hefur dregist töluvert saman, mest í fyrra eða um 7%. Ástæðan eru líffræðilegir erfiðleikar í eldinu í Chile og Noregi sem eru tvö stærstu lönd heimsins hvað eldislax varðar. Þessi samdráttur hefur hækkað verð á eldislaxi umtalsvert en verðið hækkaði um 50% milli áranna 2015 og 2016.

Þeir Lövestad og Graneröd telja að verð á eldislaxi muni haldast hátt a.m.k. næstu þrjú árin. Þeir spá því að meðalverðið í ár muni nema um 60 norskum kr. á kíló eða um 770 krónum. Verðið lækki aðeins á næsta ári eða í 59 norskar kr og fari síðan aftur í 60 norskar kr. árið 2019