Fiskeldi að verða stærra en veiðar

Bæði sérfræðingar og stjórnvöld telja að innan fárra ára muni fiskeldi taka við af fiskveiðum sem stærsti framleiðandi á fiski í heiminum. Eftirspurn eftir fiskafurðum í heiminum fer stöðugt vaxandi vegna fólksfjölgunnar á sama tíma og dregur úr fiskveiðum vegna minnkandi fiskistofna.

Fjallað er um málið á vefsíðunni e24.no. Þar kemur m.a. fram að Evrópusambandið í dag framleiðir um 1,2 milljónir tonna af fiskafurðum á ári. Neyslan er hinsvegar um 25 kíló af fiski á mann á ári í ESB þannig að flytja þarf inn um 65% af öllum fiski sem neytt er innan sambandsins.

„Við áætlum að mannfjöldi heimsins nái 9 milljarða markinu á komandi árum. Nokkrir telja að við verðum að tvöfalda matvælaframleiðsluna fram til ársins 2030 vegna fjölgunar mannkynsins,“ segir Torgeir Edvardsen hjá Fiskeldis og tæknistofnun Evrópu í samtali við Reuters. „Stór hluti af þessari aukningu getur ekki komið frá hefðbundnum matvælaframleiðendum á landi. Við verðum að styðjast við sjávareldi í stórauknum mæli frá því sem nú er til að mæta eftirspurninni.“

MF: Stöðugt minnkandi munur

Alls voru framleidd 51,7 milljónir tonna af fiski í fiskeldisstöðvum á heimsvísu árið 2006. Verðmæti þess nam tæpum 79 milljörðum dollara eða yfir 8.000 milljörðum kr. Frá árinu 2006 og þar til í fyrra hefur framleiðslan á eldisfiski aukist í 79 milljónir tonna og nálgast því óðfluga heildarafla skipa og báta en hann nemur um 92 milljónum tonna á ári. Ekki er búist við að veiðar skili meiru en þessum 92 milljónum tonna í náinni framtíð vegna kvóta og verndaraðgerða sem eiga að koma í veg fyrir að ýmsir veiðistofnar beinlínis hrynji. Á móti er áætlað að eldisfiskur fari í yfir 100 milljónir tonna á ári á næsta áratug. OECD áætlar raunar að fiskeldi verði orðið stærra en fiskveiðar í heiminum þegar árið 2021.