Fiskeldi er mikilvæg atvinnugrein

Kristján Davíðsson

Vistvæn matvælaframleiðsla.

Fiskeldi nýtur velvildar alþjóðasamfélagsins sem vistvænt svar við aukinni eftirspurn eftir próteinríkum matvælum en FAO áætlar að við óbreytta eftirspurn þurfi um 50 milljón tonnum (25% aukningu) meira af mat úr hafinu næstu 30 ár og sú aukning verður að koma frá fiskeldi því flestir fiskistofnar eru þegar fullnýttir. Sama velvild gildir um fiskeldisþjóðir, sem allar stefna að aukinni framleiðslu. Ástæðan er ekki síst góð fóðurnýting í samanburði við annað eldi dýra, lítil auðlindanotkun, ekki síst vatns og lítil og endurkræf umhverfisáhrif fiskeldis. Þá liggur fyrir að kolefnisfótspor fiskeldisafurða er með því lægsta sem gerist í matvælaframleiðslu, t.d. aðeins um sjöundi hluti kolefnisfótspors nautakjöts.

 

Atvinnuvegur í uppbyggingu.

Fiskeldi hefur byggst hægt en örugglega upp hér á landi á síðustu árum og fiskeldisframleiðslan er enn lítil. Á þeim takmörkuðu svæðum sem eldi frjórra laxa er leyft, sem eru aðeins lítill hluti strandlengjunnar og fjarri flestum laxveiðiám, var laxaframleiðslan um 11 þúsund tonn í fyrra og gæti orðið um 14 – 15 þúsund tonn í ár, eða sem nemur um 1% af fiskeldi Norðmanna og 15% af framleiðslu Færeyinga. Samhliða hefur eldi á regnbogasilungi minnkað og verður væntanlega aðeins nokkur hundruð tonn í ár. Bleikjueldi hefur vaxið hægt og bítandi og verður um 5-6.000 tonn á þessu ári, en Ísland er leiðandi á heimsvísu í bleikjueldi.

Nýlega voru gefin út leyfi sem fela í sér aukna framleiðslu. Ljóst er að sú aukning mun eiga sér stað á nokkurra ára bili. Seiðaframleiðslugeta fyrirtækjanna samsvarar nú um 25 þúsund tonna ársframleiðslu. Framundan er því veruleg og tímafrek fjárfesting í seiðastöðvum, sem tekur nokkur ár og í framhaldinu í sjókvíum og tilheyrandi búnaði. Til viðbótar kemur uppbygging fullvinnslu afurða, sem vænta má í framhaldi, en á Íslandi er rík hefð og mikil þekking á fullvinnslu fiskafurða.

 

Mikið í húfi fyrir landsbyggðina og þjóðarbúið allt.

Fiskeldið hefur þegar haft mikil byggðaleg áhrif á þeim svæðum þar sem það er stundað og skapað hundruð starfa. Ef fiskeldisframleiðslan yrði í samræmi við burðarþolsmat það sem þegar hefur verið unnið má ætla að útflutningsverðmæti yrði svipað og af öllum þorskútflutningi – og er þá ótalin verðmætasköpun sem fullvinnslu fylgir. Ef framleiðslan yrði eins og áhættumat Hafrannsóknarstofnunar kveður á um yrði útflutningsverðmætið álíka og af öllum uppsjávarfiskinum sem fluttur er út frá Íslandi. Atvinnusköpun næmi fjórum til sjö þúsund ársverkum, að mati Byggðastofnunar og augljóst að byggðaáhrifin verða afar jákvæð, sérstaklega á þeim dreifbýlu svæðum sem hafa verið í vörn.

 

Langtímaverkefni stjórnvalda og hagsmunaaðila.

Það er ljóst að fiskeldi er komið til að vera á Íslandi þótt enn sé uppbyggingin hæg, enda er það stefna bæði stjórnvalda, bæði á héraðs- og landsvísu, sem og atvinnugreinarinnar sjálfrar og stoðgreina hennar að fiskeldi verði einn af undirstöðuatvinnuvegum landsins, eins og í nágrannalöndunum. Stefnumótun stjórnvalda byggir á bestu fáanlegri þekkingu og vísindum. Það er sameiginleg stefna að fiskeldi á Íslandi eigi að byggjast upp á þessum grundvelli bestu fáanlegu þekkingar og vísinda, þ.m.t. burðarþolsmati og áhættumati, ásamt reynslu og stefnu nágrannaþjóða.

 

Strangar kröfur og skýrar.

Fiskeldi er langtímaverkefni og því mikilvægt að laga – og reglugerðarammi sé skýr, skilvirkni ráði við afgreiðslu leyfisumsókna og að starfsumhverfið sé fyrirsjáanlegt til framtíðar. Fiskeldi krefst mikils fjármagns og fjárbinding, áður en tekjur fara að skila sér, telst í mörgum árum á uppbyggingarskeiði eldisfyrirtækjanna.

Fiskeldisfyrirtækin lúta ströngum reglum um leyfisveitingar, útbúnað, eftirlit og vöktun. Kvíarnar uppfylla norska staðalinn NS 9415:2007 sem reynsla frá Noregi sannar að hefur reynst vel, eins og tölur um þróun slysasleppinga sýna ótvírætt.

Áhættumat Hafrannsóknastofunar „gerir almennt ráð fyrir litlum áhrifum á náttúrulega stofna fyrir utan nokkrar ár.“ (Laugardalsá, Hvannadalsá/Langadalsá og Breiðdalsá). Undir þetta er tekið í stefnumótunarskýrslu sem unnin var í fyrra, en að henni áttu aðild fulltrúar Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðneytis, Umhverfisráðuneytis, Landssambands Fiskeldisstöðva og Landssambands Veiðifélaga. Þetta ætti að auðvelda almenna sátt um uppbyggingu fiskeldis á þeim takmörkuðu svæðum sem reglugerð frá árinu 2004 heimilar.